Leiðinlegir leiðtogar

Greinar

Milda þjóðremban, sem einkennir stjórnmál hér á landi, hefur enn birzt okkur í bók, sem ríkisvaldið gefur út, af því að markaðshagkerfið veit, að hún selst ekki. Bókin segir okkur, að forsætisráðherrar landsins á síðustu öld hafi allir verið góðir, en Hannes Hafstein og Davíð Oddsson þeirra beztir.

Montið er viðkunnanlegur stíll fráfarandi forsætisráherra, vel metinn af þjóðinni. Hann reisti sér monthús fyrir borgina í Tjörninni og innréttaði sér monthús í gamla Landsbóksafninu. Ráðhúsið og Þjóðmenningarhúsið voru, eins og nýja bókin er, birtingarmyndir hins roggna stjórnarfars.

Auðvitað eru íslenzkir tómatar betri en aðrir tómatar, en lambakjötið tekur þó öllu fram um víða veröld. Auðvitað er íslenzkur fiskur bezti fiskur í heimi, en súr hvalur og úldinn hákarl taka öllu fram. Auðvitað eru Íslendingar bezta þjóð í heimi, en sjálfstæðismenn eru auðvitað beztir allra.

Ætla má af bókinni góðu, að tímamót séu í veraldarsögunni, þegar hertoginn stígur af upphöfnu hásæti sínu og hleypir Framsókn að. Staðreyndin er hins vegar sú, að lífið heldur áfram sinn vanagang. Ríkisstjórnin hefur verið við völd frá ómunatíð og hyggst áfram verða við völd til ómunatíðar.

Einn helzti kostur lýðræðis er jafnan talinn vera, að skipt er um stjórnir átakalítið. Kjósendur verða leiðir á einum leiðtoga og velja sér annan í fastri leikreglu, sem kölluð er kosningar. Hér á landi vilja kjósendur fremur hafa sömu ríkisstjórnina aftur og aftur með litlum mannaskiptum.

Montbókin og forsætisráðherraskiptin sýna, að ekkert hefur breytzt í þessum efnum. Roggin smáþjóð mun áfram hafa þá stjórn og það stjórnarfar, sem henta henni. Næsta skref er að komast inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og eru í því skyni stofnuð sendiráð um allar trissur, jafnvel í Afríku.

Ekki eitt einasta atriði mun breytast við stólaskipti Davíðs og Halldórs Ásgrímssonar. Við munum áfram styðja stríðsglæpi Bandaríkjanna víða um heim. Við munum áfram forðast aðild að Evrópusambandinu. Við munum selja Símann, sem ekki mun lenda í höndum kolkrabbans fremur en aðrar seldar ríkisstofnanir.

Eins og aðrar ríkisstjórnir mun þessi áfram gera margt gott og annað miður. Með daufgerðari forsætisráðherra mun þó örar fjölga þeim, sem að lokum verða leiðir á endalausri samstjórn samvaxinna stjórnarflokka. Fyrr en ella kemur að því, að nógu margir kjósendur nenna ekki að endurkjósa þá.

Þótt montin stjórn henti rogginni smáþjóð, munu kjósendur að lokum átta sig á, að þeir eru orðnir hundleiðir á samstarfi um ríkisstjórn, sem fyrir löngu hefur gengið sér til húðar.

Jónas Kristjánsson

DV