Alþýðuflokkurinn stendur á krossgötum í vetur. Annars vegar berst flokkurinn fyrir lífi sínu sem þingflokkur. Hins vegar á hann ýmsa möguleika á að hagnast á óánægju stuðningsmanna annarra flokka, einkum Sjálfstæðisflokksins. Og einmitt á þessum tíma eru leiðtogamál Alþýðuflokksins í ólestri.
Alþýðuflokkurinn stæði mun traustar á krossgötunum, ef hann hefði leiðtoga, sem hentar lýðræðisjafnaðarflokki með fjöldafylgi, eins og slíkir flokkar eru víðast hvar í Norður- og Vestur-Evrópu. Hann vantar menn, sem sameina pólitíska reisn og rætur í verkalýðsfylgi.
Gylfi Þ. Gíslason er engan veginn fullkominn leiðtogi slíks flokks. Hann hefur reisn, en hann skortir rætur og traust hjá almenningi. Og hann ætlar ekki að vera í framboði í næstu kosningum.
Hér í þessum dálkum hafa nýlega verið leidd rök að því, að með Benedikt Gröndal kemur ekki maður í manns stað. Hann skortir reisn Gylfa og hann hefur ekki meiri rætur hjá almenningi né meira traust hans. Hann er ekki leiðtogi fyrir flokk, sem stendur á krossgötum.
Ekki er heldur um auðugan garð að gresja í valdastöðvum flokksvélarinnar, einkum í Reykjavík. Margt er þar mætra manna, en utan frá að sjá skortir þá reisn og vídd til flokksforustu.
Dæmigerður fulltrúi flokksvélarinnar er Kjartan Jóhannsson, varaformaður flokksins. Hann er vel menntaður. Frami hans í flokknum er þó meira að þakka leikni hans í hinu dæmigerða innanflokksbrölti flokksvélarmanna. Hann hefur hvorki reisn né rætur.
Margir horfa eðlilega með vonaraugum á hina ungu og reiðu menn í flokknum. Þeir hafa opnað glugga flokksins og hleypt inn hreinu lofti. Þeir hafa veitt flokknum hugmyndafræðilega og siðferðilega endurnýjun.
Slíkir menn hafa jafnan reynzt lýðræðisjafnaðarflokkum góðir baráttumenn, en sjaldnast góðir leiðtogar. Til þess hafa þeir of mikinn tilfinningahita og of lítið jafnvægi.
Dæmigerður fulltrúi hinna ungu og reiðu manna er Vilmundur Gylfason. Hann hefur reynzt hinn færasti siðferðispostuli. En hann skortir ró, auk þess sem stjórnmálaforusta á ekki að ganga í erfðir.
Eina von Alþýðuflokksins er að finna sér nýjan leiðtoga úr röðum verkalýðshreyfingarinnar. Hún er helzta afl alþýðunnar. Þar er að finna ræturnar, sem leiðtogi öflugs lýðræðisjafnaðarflokks þarf helzt að hafa. En utan frá að sjá virðist flesta oddamenn flokksins í verkalýðshreyfingunni skorta reisn og vídd til flokksforustu.
Eggert G. Þorsteinsson er orðinn of þreyttur. Björn Jónsson vill líklega ekki, enda sennilegt, að hann telji hæfileika sína nýtast betur í verkalýðsmálum en í flokksforustu, og væri það þá rétt metið.
Þrátt fyrir allt er Gylfi bezta leiðtogaefni Alþýðuflokksins og Björn Jónsson að honum frágengnum. En Alþýðuflokkurinn verður að leita áfram í röðum alþýðunnar að nýju leiðarljósi með næga reisn. Á því byggist framtíð flokksins næsta áratuginn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið