Leiðtoginn

Greinar

Sviss er eitt af helztu draumalöndum heims. Þar býr þrautseig og auðug þjóð, sem getur leyft sér að standa utan nokkurra þekktustu fjölþjóðasamtaka heims. Við vitum fæst, hverjir stjórna Sviss, enda trana leiðtogarnir sér ekki fram. En allir vita, að þar er vel stjórnað.

Sviss er líklega það ríki, sem kemst næst fyrirmyndarríki heimspekingsins Lao Tses. Þar fer saman vilji íbúa og leiðtoga á svo eðlilegan hátt, að fólk tekur ekki eftir, að stjórnað sé. Fólk veit ekki, hvað ráðherrann heitir, en gengur í fullu trausti til daglegra verka sinna.

Flestar uppgangsstofnanir hafa fyrirferðarmeiri leiðtoga en Sviss hefur, en þó leiðtoga, sem njóta virðingar á valdasvæði sínu. Slíkir leiðtogar geta verið með ýmsum hætti eftir aðstæðum og áherzlum hverju sinni. Einn hét til dæmis Olof Palme og annar heitir Carl Bildt.

Virtir leiðtogar hafa áhrif og ná árangri, af því að fólk vill fylgja þeim. Íbúarnir eru ekki allir sammála þeim, en bera virðingu fyrir þeim og treysta þeim til að stefna að farsælum lausnum á aðsteðjandi verkefnum og vandamálum. Þeir veita fólki sínu styrk og öryggi.

Ekki skiptir öllu, hvort slíkir leiðtogar eru beinlínis kjörnir til verka sinna eða komnir til þeirra með öðrum hætti. Til dæmis eru virtir leiðtogar hvergi brýnni en í styrjöldum, þar sem gengi herja fer að verulegu leyti eftir trausti og dálæti hermanna á foringjum sínum.

Gott er að sjá þetta í hnotskurn í sjávarútvegi Íslands. Karlinn í brúnni nýtur virðingar áhafnar og laðar hana til samræmdra, jafnvel ofurmannlegra átaka, sem leiða til mikils aflaverðmætis. Það þýðir ekki að stjórna fiskiskipi, ef áhöfnin óttast eða fyrirlítur kafteininn.

Við ýmsar aðstæður geta þrifizt leiðtogar, sem ekki eru virtir, heldur óttast menn þá eða fyrirlíta, allt eftir því, hvar menn eru staddir í valdapíramídanum. Þetta ástand fer saman við arðlausar og árangurslausar stofnanir, svo sem heri, er ekki hafa neitt fyrir stafni.

Þetta getur gilt um þjónustudeildir fyrirtækja, þar sem erfitt er að mæla árangur. Það getur gilt um heilu fyrirtækin, sem standa á fallanda fæti, stjórnardeildir, heilu ráðuneytin, svo og ríkisstjórnir, jafnvel vestrænna ríkja. Opinberum stofnunum er einna hættast á þessu sviði.

Lao Tse sagði: “Þegar ríki er á fallanda fæti, verður konunghollusta og hlýðni efst á baugi”. Slíkar stofnanir horfa í gaupnir sér, eru hættar að virka, framleiða hvorki frambærilega vöru né þjónustu, eru í sjálfu sér arðlausar, en þeim er haldið saman af ótta og fyrirlitningu.

Er hollusta fæst ekki með eðlilegum hætti eins og í Sviss eða með virðingu eins og í vel heppnuðum fyrirtækjum og ríkjum, fara leiðtogar að kalla á hana og reyna að láta starfsemi stofnana sinna snúast um hana. Þeir ógna undirmönnum sínum og uppskera fyrirlitningu.

Til langs tíma er farsælast, að leiðtoginn og hinir leiddu stefni í sömu átt af fúsum og frjálsum vilja, knúnir fram af innri gleði og krafti. Þannig næst árangur. Þannig verða fyrirtæki arðbær og þjóðir ríkar. Fólk er samhent, en óttast hvorki né fyrirlítur leiðtogana.

Því miður er svo komið fyrir Vesturlöndum, að leiðtogar bregðast fólki og framkalla ekki virðingu í röðum þess. Í vaxandi mæli eru þeir berir að athöfnum, sem leiða til fyrirlitningar fólks og falls þeirra í kosningum. Þetta er haft til marks um hnignun Vesturlanda.

Fyrirtæki verða ekki lengi arðbær og ríki ekki lengi auðug, nema leiðtogar starfi á þann hátt, að virðing renni sjálfkrafa til þeirra eins og vatn undan brekku.

Jónas Kristjánsson

DV