Leifur norski og alfræðibókin

Greinar

Samkvæmt heimild allra heimilda var Leifur heppni norskur, en ekki íslenzkur. Encyclopædia Britannica velkist ekki í vafa um ágreiningsefnið, sem Íslendingar hafa löngum haft mikið fyrir að fá túlkað sér í hag í Bandaríkjunum, heimalandi alfræðibókarinnar.

Raunar gengur heimild allra heimilda lengra, því að í norska kaflanum segir, að “norskir sæfarar hafi verið heimskunnir, allt frá dögum Eiríks rauða og sonar hans Leifs heppna”. Í kaflanum um Ísland er hins vegar hvergi getið um landafundi, Vínland eða feðgana.

Encyclopædia Britannica birtir raunar nafn Leifs upp á norsku, “Leiv Eriksson den hepne”. Lesendum er óbeint gefið í skyn, að þannig hafi nafn Leifs verið ritað fyrir þúsund árum af því fólki, sem alfræðibókin kallar “Norse” og talaði tungu, sem hún kallar “norse”.

Tilvitnanirnar hér að ofan eru úr vefútgáfu Encylopædia Britannica, þeirri sem blaðamenn og fréttastjórar um allan heim nota, þegar þeir kanna, hvort rétt sé farið með. Þess vegna er þetta heimild allra heimilda, það sem haft er fyrir satt um allan heim.

Þetta er einnig sú heimild, sem menntaráðuneytið íslenzka vill, að verði aðgengileg öllum Íslendingum. Þess vegna hefur hún samið um að greiða í einu lagi fyrir áskrift allrar þjóðarinnar að vefútgáfu Encylopædia Britannica, svo sem rækilega hefur verið auglýst.

Þar sem heimild allra heimilda telur Leif heppna og Eirík rauða hafa verið norska, fundi Grænlands og Vínlands hafi verið afrek norskra sæfara og að “norse” hafi verið töluð á Íslandi í gamla daga, má ljóst vera, að gagnaðgerðir Íslendinga eru á hreinum villigötum.

Engu máli skiptir, hvað Clinton Bandaríkjaforseti fæst til að trúa og tala á hátíðlegum stundum. Engu máli skiptir, hvort hægt er að koma íslenzkri söguskoðun á framfæri við hátíðahöld fína fólksins í Vesturheimi. Það eitt skiptir máli, hvað heimild allra heimilda segir.

Bandaríkjaforsetar koma og fara. Hátíðahöld koma og fara. Fína fólkið kemur og fer. Encyclopædia Britannica blífur hins vegar, daglega skoðuð af hliðvörðum upplýsingageirans og skjólstæðingum menntaráðuneyta. Gagnsókn Íslendinga beinist að röngum aðilum.

Vitneskjan um mikilvægi alfræðibókarinnar og lítilvægi Clintons, hátíðahalda og fína fólksins einfaldar málið um leið. Það, sem menntaráðherra þarf að gera, er að senda vaska sveit hæfra sérfræðinga til höfuðstöðva Encyclopædia Britannica til að skýra málstaðinn.

Stjórnvöld hafa varið miklu fé til að telja Bandaríkjamönnum trú um, að Leifur Eiríksson hafi verið íslenzkur og ætla að verja til þess enn meira fé. Miklu minna kostar að skipuleggja og framkvæma leiftursókn réttra upplýsinga í garði heimildar allra heimilda.

Ef ritstjórar Encyclopædia Britannica viðurkenna, að Leifur heppni hafi verið fæddur á Íslandi og að landnám Grænlands og Vínlands hafi að mestu verið íslenzkt fremur en norskt, er nánast með einu pennastriki hægt að breyta vefútgáfu alfræðibókarinnar.

Það einfaldar málið, að starfsmenn menntaráðuneytisins hljóta að þekkja til innanbúðar hjá heimild allra heimilda eftir undirritun samkomulagsins um áskrift allra Íslendinga. Þeir þurfa því ekki að byrja á að kynna sig, þegar þeir hefja stórskotahríð upplýsinga.

Íslenzk stjórnvöld þurfa aðeins að átta sig á, að söguskoðunarvaldið er ekki hjá fínu fólki í veizlum, heldur hjá þeim, sem skrifa alfræðibók alheimsins.

Jónas Kristjánsson

DV