Leiga Almannagjár

Greinar

Þótt eðlilegt sé að leyfa kvikmyndatökufólki að nota náttúru Íslands sem bakgrunn að kvikmynda- og sjónvarpsefni, er ekki forsvaranlegt að leigja þeim Almannagjá og loka henni um leið fyrir innlendum og erlendum ferðamönnum. Það voru mistök hjá Þingvallanefnd.

Alþingi þjóðveldisaldar var háð í eða við Almannagjá. Hún er þungamiðja Þingvallasvæðisins og helgur staður í þjóðarsögunni. Enginn staður á landinu er friðhelgari en hún. Íslenzkir borgarar mega aldrei koma að henni lokaðri, af því að hún hafi verið leigð út.

Eftir lýsingum að dæma var Almannagjá notuð sem óþekkjanlegur bakgrunnur fyrir vélframleidda þoku. Margir hamraveggir eru til á Íslandi, sem henta vel til slíkrar kvikmyndagerðar, þótt íslenzkir aðstandendur kvikmyndarinnar virðist hafa verið ófróðir um þá.

Þeim hefði verið gerður greiði með því að benda þeim á aðra hamraveggi, svo sem Tröllagjá eða Ásbyrgi, sem ekki eiga jafn helgan sess í þjóðarsögunni. Engan veginn verður séð, að Almannagjá sé neitt heppilegri bakgrunnur fyrir vélframleidda þoku í auglýsingamynd.

Málsaðilar telja ekkert athugavert við þetta. Þeir hampa 350.000 silfurpeningum Þingvallanefndar og reikna óbeinar gjaldeyristekjur af kvikmyndaliðinu og aðstoðarfólki þess. Þeir hafa slitnað úr tengslum við þjóðarsöguna og hugsa eins og hverjar aðrar hórur.

Í leiðindamáli þessu kemur einnig fram landlægur undirlægjuháttur og minnimáttarkennd Íslendinga gagnvart útlendingum og sú landlæga hugsun, að skjótfengnir peningar séu upphaf og endir alls. Þessi árátta virðist lítið lagast með aukinni lífsreynslu þjóðarinnar.

Skynsamlegt er að greiða götu innlendra og erlendra kvikmyndagerðarmanna. Flestir eru ekki fyrirferðarmiklir á vettvangi og skilja ekki eftir neinn óþrifnað. Rangt er að reyna að hafa fé af þeim sérstaklega umfram aðra ferðamenn vegna notkunar landslags.

Hitt er svo annað mál, að svo getur farið, að selja þurfi aðgang að hálendinu eða ákveðnum stöðum þess vegna of mikils og ört vaxandi álags. Það fé yrði þá innheimt af öllum, innlendu og erlendu fólki, með og án kvikmyndavéla, og færi í kostnað við verndun staðanna.

Ef haldið verður áfram að reyna að ná til landsins þeirri tegund ferðamanna, sem helzt vill fara til staða á borð við Þingvöll, Gullfoss, Geysi, Þórsmörk, Landmannalaugar, Hveravelli og Herðubreiðarlindir, er ljóst, að taka verður sérstaklega á því vandamáli.

Erfitt er að hugsa sér, að slíkum stöðum sé lokað um tíma og sízt vegna þess, að einhver aðili hafi leigt sér einkaaðgang að honum vegna kvikmyndatöku eða af öðrum ástæðum. Hitt er líklegra, að skammtaður verði aðgangur með útgáfu aðgöngumiða að slíkum stöðum.

Sennilega mundi þó síðast af öllu verða seldur aðgangur að Almannagjá, jafnvel þótt álagið þar margfaldist. Söguleg staða hennar er slík, að hún hentar verr sem söluvara en annað landslag. Flestir mundu heldur vilja greiða kostnað af verndun hennar af almannafé.

Þannig eru mistökin tvenn í umræddu máli, annars vegar að veittur var einkaaðgangur að gjánni, og hins vegar að tekið var óbeint gjald fyrir aðganginn.

Jónas Kristjánsson

DV