Leitað að sökudólgi

Greinar

Við venjulegar aðstæður er ekki deilt um, að drukkinn ökumaður, sem ekur á 150 km hraða í miðri stórborg, beri ábyrgð á dauðaslysi, sem leiðir af þessu háttalagi. Gildir þá einu, hvort í kjölsoginu séu nokkrir hnýsnir ljósmyndarar, sem eru á vegum slúðurfjölmiðla.

En slysið í París um helgina var ekki venjulegt dauðaslys, heldur var fórnardýr þess ein helzta goðsagnapersóna nútímans. Fórnardýr hins gálausa ölvunaraksturs var prinsessan, sem brezka konungsfjölskyldan kastaði frá sér, þegar hún hafði notað hana til undaneldis.

Saga prinsessunnar hefur öll verið hjartnæm. Eftir skilnaðinn við krónprins Breta hefur hún tekið virkan þátt í fjölmiðlastríði við brezku konungsfjölskylduna og meðal annars beitt fyrir sig þeim slúðurfjölmiðlum, sem löngum hafa sótzt eftir persónumyndum af henni.

Prinsessan var orðin hluti af lífi margs fólks, eins konar fjölskylduvinur. Sumt af þessu fólki krefst annarra sökudólga en hins drukkna ökumanns og hefur fundið þá í ljósmyndurunum á vettvangi. Það telur þá hafa í rauninni drepið prinsessuna með því að elta hana.

Sennilega eru þessir sjö ljósmyndarar siðferðilega meðábyrgir. Þeir eiga siðferðilega aðild að málinu, hvers svo sem lagaleg staða þeirra er í Frakklandi. Þeir voru þátttakendur í atburðarás, sem fékk hörmulegan endi. Reiði fólks beinist fyrst og fremst að þessum mönnum.

Erfitt er fyrir Íslendinga að gera sér grein fyrir hlutverki slúðurljósmyndara. Hér á landi er ekki fylgzt með framhjáhaldi frægs fólks og glaumgosa. Hér er ekki kannað, hver borði með hverjum á veitingahúsi eða hver liggi við hlið hvers á baðströnd eða skútuþilfari.

Hér snúast deilur um friðhelgi einkalífs fólks fyrst og fremst um, hversu langt megi ganga í birtingu ættfræðilegra upplýsinga í uppsláttarritum og hversu langt megi ganga í birtingu upplýsinga úr skattskrám. Raunverulegt einkalíf Íslendinga er ekki notað til birtingar.

Einkalíf frægs fólks er hins vegar opið í löndum á borð við Bretland. Þar eru beinlínis gefnir út fjölmiðlar, sem nærri eingöngu snúast um einkalíf frægs fólks. Þessir fjölmiðlar eru seldir í milljónum eintaka, meðan hefðbundnir fjölmiðlar seljast í hundruðum þúsunda.

Þessir fjölmiðlar byggjast á firringu almennings, sem tekur sýndarveruleika fræga fólksins fram yfir sinn eigin nöturlega hversdagsleika. Einu vinirnir, sem þetta fólk á, er fræga fólkið í slúðurfjölmiðlunum. Þetta fólk fylgist ekki með fréttum, það fylgist bara með slúðri.

Sumar sjónvarpsstöðvar og dagblöð á borð við Sun og Mirror gera út á þetta fólk. Í þessum fjölmiðlum eru alls engar fréttir í venjulegum skilningi. Þeir birta bara slúður. Þeir kaupa ljósmyndir, sem hnýsnir ljósmyndarar taka af frægu fólki, yfirleitt af skemmtanalífi þess.

Fræga fólkið notar svo þessa sömu fjölmiðla til að halda uppi sýndarveruleika frægðarinnar. Þannig hafa talsmenn prinsessunnar hringt í slúðurfjölmiðlana til að koma á framfæri slúðri, sem þeir töldu vera henni til framdráttar í deilunum við konungsfjölskylduna.

Í sýndarveruleikanum snúast hnýsnir ljósmyndarar, stjórnendur og eigendur slúðurfjölmiðla, notendur slúðurfjölmiðla og svo auðvitað fræga fólkið, sem beitir sömu fjölmiðlum frægð sinni til framdráttar. Í þessum vítahring vísar hver ábyrgðinni á hendur hinum.

Í hinum raunverulega heimi utan þessa sýndarveruleika er slysið hins vegar áminning um, að fólk eigi ekki að aka drukkið og ekki á þreföldum hámarkshraða.

Jónas Kristjánsson

DV