Leitað gulls í Mexíkó

Greinar

Nýjasta ráðið til reisnar íslenzkum þjóðarhag er að efla viðskipti við Mexíkó. Þar hefur fjármálaráðherra fundið ríki, sem hann telur bjóða margvíslega möguleika á útflutningi íslenzkra afurða og íslenzkrar þekkingar, eins konar Nígería hin nýja, gullnáma í vestri.

Níu íslenzk fyrirtæki hafa verið dæmd til upphefðarinnar af þessum viðskiptum. Þau framleiða vélar og tæki fyrir sjávarútveg og sinna sölu á slíkum vörum og á tækniþekkingu í sjávarútvegi. Vinir fjármálaráðherra okkar í Mexíkó hafa beðið um skýrslu frá þeim.

Áður en hrifningaraldan út af snjallræðinu verður að brotsjó, er rétt að benda á, að peningar og viðskipti eru á hröðum flótta frá Mexíkó. Bankar, sem hafa lánað þangað fé eða ábyrgzt greiðslur þaðan, sjá ekki krónu renna til baka og neita öllum nýjum viðskiptum.

Orsök hörmunga Mexíkana er glæpaflokkur, sem hefur verið við völd þar í landi áratugum saman, Þjóðlegi byltingarflokkurinn. Glæpaflokkurinn hefur mergsogið landið og stolið flestu steini léttara. Menn hans skipa allar mikilvægar fjármálastöður í landinu.

Að nafninu til eru haldnar kosningar í Mexíkó. Fréttamenn og aðrir, sem með þeim hafa fylgzt, eru sammála um, að ekki sé að marka úrslitin. Til dæmis er almennt talið, að glæpaflokkurinn hafi tapað síðustu forsetakosningum, en falsað talninguna sér í hag.

Í sumar voru fylkiskosningar í Mexíkó. Ekkert lát var þá á fyrri vinnubrögðum glæpaflokksins, þótt hann hafi leyft stjórnarandstöðunni að vinna kosningar í einu fylki. Ekkert lát er heldur á fjárglæfrum glæpaflokksins og tilraunum hans til að hafa fé af útlendingum.

Fjármálaráðherra Íslands hefur valið sér þennan félagsskap sem embættismaður í alþjóðlegum samtökum þjófafélaga, sem kalla sig fínu nafni. Ráðherra okkar er þar, eins og Alfonsín frá Argentínu var og Carlsson frá Svíþjóð er, í hlutverki nytsams sakleysingja.

Fremstur í þessum félagsskap er Rajiv Gandhi, sem stjórnar indverskum glæpaflokki, Kongressflokknum, er nýlega var staðinn að viðtöku stórfelldra mútugreiðsla frá sænska vopnaframleiðandanum Bofors. Gandhi rekur miðstýrt mútukerfi í Indlandi.

Annar af þessu tagi er Andreas Papandreou í Grikklandi, sem stjórnar flokki, er hefur eftir skamman valdaferil skilið eftir sig ógeðfellda slóð af fjárglæfrum og mútum, sem nú er fjallað um fyrir dómstólum, síðan hann missti völdin til kommúnista og íhaldsmanna.

Um þriðja flokkinn þarf ekki að segja margt. Það er flokkur Nyereres í Tanzaníu, sem hefur áratugum saman haft ríkar stjórnir Norðurlanda að fífli. Þessi flokkur tók við auðugu landi, en hefur gengið betur en flestum öðrum stjórnum í Afríku að gera það að fátækrahæli.

Innan um þessi stórhveli glæpanna hafa svo leynzt nytsamir sakleysingjar á borð við Raoul Alfonsín í Argentínu og Ingvar Carlsson frá Svíþjóð, svo og fjármálaráðherra okkar, sem hefur verið óheppinn í vali erlendra vina og öðlast með þeim nokkur mannaforráð.

Þótt fjármálaráðherra hafi lent í súpu Carlos Salinas de Gortari í Mexíkó og annarra rummungsþjófa, er ekki nauðsynlegt, að hann dragi níu íslenzk fyrirtæki með sér. Ekki er heldur nauðsynlegt, að íslenzka ríkið sé í samkrulli með þjófunum í greiðslu ferðakostnaðar.

Brýnt er að íslenzk stjórnvöld kynni sér stöðu fjármála og lýðréttinda í Mexíkó, áður en fjármálaráðherra tekst að búa til nýtt Nígeríuævintýri á þeim slóðum.

Jónas Kristjánsson

DV