Lítið hefur verið um svör Ísal og Alusuisse við breiðsíðum iðnaðarráðuneytisins. Eina marktæka svarið er, að endurskoðunarstofa í London sé enginn dómstóll. Það er rétt, en eigi að síður lítur málið einkar skuggalega út.
Alusuisse segist hafa greitt Ísal 14 milljónir dollara fyrir tilbúið ál umfram eðlilegt markaðsverð. Iðnaðarráðuneytið segir hins vegar, að Ísal hafi fengið rétt markaðsverð fyrir ál í þessum gæðaflokki.
Auk þess ætti að vera í lagi, þótt Ísal fengi rúmlega markaðsverð fyrir tilbúið ál, því að Alusuisse tekur 1,5% af öllu söluverðmæti Ísal fyrir að sjá um, að íslenzka verksmiðjan fái gott verð fyrir álið.
Alusuisse segist hafa gefið Ísal 10 milljónir dollara í styrk árið 1976. Iðnaðarráðuneytið vitnar aftur á móti í orð stjórnarformanns Alusuisse, þar sem fram kemur, að þetta voru eins konar skaðabætur fyrir undirverð til Bretlands.
Emanuel R. Meyer sagði þá um Bretlandsviðskipti Alusuisse: “Við ákváðum að þrauka. Kostnaðurinn var borinn af dótturfyrirtækjum okkar á Íslandi og Noregi, en að lokum af Alusuisse í formi beinna fjárframlaga.”
Þannig virðast mótbárur álmanna ekki mikils virði. Verri er þó þögn þeirra. Komið hefur í ljós, að þeir hafa neitað bæði iðnaðarráðuneytinu og endurskoðendum í London um fylgiskjöl, þar sem þau séu trúnaðarmál.
Endurskoðendurnir í London urðu að taka trúanlegar upplýsingar starfsbræðra frá Sviss, af því að Alusuisse neitaði að sýna fylgiskjöl. Og Ísal neitaði iðnaðarráðuneytinu síðast 2. júlí um fylgiskjöl Alusuisse-viðskipta.
Svona lagað gengur náttúrlega ekki og vekur grunsemdir um, að svindlið sé verra en þegar hefur komið fram. Ásakanirnar eru svo alvarlegar og rökfastar, að álmenn verða að leggja spilin á borðið, ef þeir hafa einhver.
Ennfremur hefur komið fram, að stjórnarmenn Ísal eru þar bara upp á punt. Eini Íslendingurinn, sem eitthvað fær að vita um rekstur Ísal, er sjálfur forstjóri þess. Aðrir stjórnarmenn íslenzkir fá enga pappíra, þótt þeir biðji um þá.
Alusuisse á Ísal og notar það sem eitt af mörgum peðum á alþjóðlegu bókhalds-skákborði sínu. Á þessu borði er tap búið til á einum stað til að koma hagnaðinum þangað, sem hann er ódýrastur, minnst skattlagður.
Þetta þýðir, að íslenzka ríkið verður að kaupa sig inn í Ísal til þess að fá að vita, hvað er þar á seyði. Og sennilega verður óhjákvæmilegt að kaupa meirihlutann, af því að Svisslendingunum er ekki treystandi í viðskiptum.
Í þessari stöðu er varhugavert að segjast taka samkomulag við álmenn fram yfir málaferli gegn þeim. Þeir taka slíkt tal sem merki um veikleika. Þess vegna þarf að undirbúa málshöfðun fyrir réttum dómstólum.
Í þessari stöðu er einnig varhugavert að tala um, hversu þægilegt væri í orkubúskapnum að semja við Ísal eða Alusuisse um tvöföldun álversins í Straumsvík. Álmenn taka slíkt tal líka sem veikleikamerki.
Samkomulag um fortíðina og samstarf um framtíðina er hugsanleg niðurstaða, en bara hugsanleg. Gæzlumenn hagsmuna Íslands verða líka að hafa aðrar niðurstöður í huga, ef þeir ætla sér að tefla af viti við Svisslendinga.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið