Dauðastríð ríkisstjórnarinnar í beinni útsendingu Stöðvar 2 var eftirminnilegur og dæmigerður punktur aftan við harmsögu, sem kalla má “Þrír hanar á sama haug”. Sérstaklega er athyglisvert, að formennirnir skuli telja sér hag í að heyja þetta stríð á skjánum.
Ríkisstjórnin, sem nú hefur sagt af sér, þjóðinni til nokkurs léttis, var alla tíð hálfgert leikhús. Þar tjáðu menn sig með miklum tilþrifum og stórum yfirlýsingum, en kunnu lítt til hversdagslegra verka, svo sem að passa aurana, sem ríkið fékk til varðveizlu og ávöxtunar.
Ágætur mælir á nytsemi ríkisstjórnar er, hve lítið fer fyrir henni og hve sjaldan hún er í fréttum. Það eru tímar góðæris, þegar allir keppast við að rækta garðinn sinn í friði. Á þessum mælikvarða fékk hin nýlátna ríkisstjórn lægstu einkunn íslenzkrar stjórnmálasögu.
Fjölmiðlar fengu ekki einu sinni að hafa sína gúrkutíð í friði. Daglega var ríkisstjórnin í heild eða einstakir ráðherrar uppi á leiksviði fréttanna. Sífellt voru þeir að eigin sögn að bjarga málum fyrir horn. Ævinlega var það með eins miklum hávaða og frekast var unnt.
Ríkisstjórnin fór af stað með loforð um stöðugleika, sem margir höfðu lengi þráð. Aðferðir hennar dugðu ekki til að standa við loforðið, þrátt fyrir ágætan meðbyr ytri aðstæðna. Um síðustu helgi var ráðherrunum orðið ljóst, að stjórnin hafði riðið sér rembihnút.
Til þess að skilja þetta, þurfa kjósendur ekki annað en að horfa á leikræna tjáningu formannanna í sjónvarpi og spyrja sjálfa sig: “Mundi ég treysta einhverjum eða öllum þessara manna til að reka svínabú á Vatnsleysuströnd?” Svarið yrði auðvitað samhljóma “Nei”.
Ef þeir tækju við af Þorvaldi í Síld og fiski, kæmu þeir umsvifalaust fyrirtækinu í varanlegan og vaxandi yfirdrátt í bankanum. Þeir mundu ráða til sín hagfræðingagengi og taka upp hvers kyns bókfærslu og undanfærslu. Þeir færu að væla um háa vexti og há laun.
Öllum má ljóst vera, að svínabúið færi fljótt fjandans til, enda gæti það ekki látið Seðlabankann prenta handa sér seðla og skyldað þjóðina til að kaupa afurðirnar á uppsettu verði. Formennirnir yrðu ekki ríkir menn, ef þeir þyrftu að vinna sig upp í atvinnulífinu.
Harmleikurinn er því miður fólginn í, að ráðherrarnir voru einmitt ötulastir við að reyna að reka atvinnulífið í landinu. Þeir ímynduðu sér, með sjávarútvegsráðherra í broddi fylkingar, að þeir gætu stjórnað atvinnulífinu. Þeir settu sjávarútveginn beint á höfuðið.
Ef hægt er að gefa viðtakandi ríkisstjórn eitt ráð, byggt á reynslu hinnar fyrri, þá er það þetta. “Látið fólkið í friði. Ruglið ekki athafnir þess með efnahagslegu skipulagi, svo sem gengi, vöxtum, bókfærslum, kvótum og skömmtun. Reynið heldur að passa ríkiskassann.”
Lélegt var og lokið er. Rýtingarnir hafa gengið í bakið á víxl. Opinberað hefur verið margslungið undirferli, sem ekki náði ætluðum árangri. Leikararnir þrír hafa tapað. Meira að segja hefur fallið á utanríkisráðherra, sem hingað til hefur haft teflon-húð eins og Reagan.
Steingrími hefur enn ekki tekizt að mynda hræðslubandalag Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokks undir stjórn og stefnu Framsóknarflokks. Hinn dasaði Borgaraflokkur hefur ekki fallizt á að hlaupa í slíka stjórn til að koma í veg fyrir kosningar.
Útlit er því fyrir væna stjórnarkreppu og kosningar, svo að kjósendur með of lítinn stjórnmálaþroska fái færi á að kjósa yfir sig nýja leiksýningu af sama tagi.
Jónas Kristjánsson
DV