Lélegur samningur norskur.

Greinar

Lélegur er samningurinn, sem Íslendingar eru að gera við Norðmenn um nýtingu auðlinda milli Íslands og Jan Mayen. Þetta er norskt hugsaður samningur, þótt hann beri ekki íslenzka hagsmuni fyrir borð.

Norðmenn hafa gífurlegan áhuga á olíu og þess vegna fjallar samningurinn um olíu. Norðmenn líta hins vegar á fiskveiðar sem eina grein landbúnaðarvitleysunnar og þess vegna fjallar samningurinn ekki um fisk.

Norðmönnum hefur hingað til verið einkar ósýnt um að vernda fiskistofna. Þeir hafa hvað eftir annað látið langtímasjónarmið víkja fyrir skammvinnum gróða. Þar eru fiskveiðar notaðar til að drepa tíma atvinnuleysingja á kostnað ríkisins.

Við erum svo sem engin ljós heldur á þessu sviði. Mjög fáir gera sér grein fyrir, hversu bráðnauðsynlegt okkur er að ná tökum á skipulagi fiskveiða utan 200 mílna lögsögunnar með samningum við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga.

Þorskur syndir milli Íslands og Grænlands. Loðna syndir milli Íslands, Grænlands og Jan Mayen. Lax er á ferðinni um allan sjó. Og svo er það kolmunninn, sem úthafsflotar Sovétríkjanna og Efnahagsbandalagsins moka upp utan 200 mílna.

Við eigum að stefna markvisst að verndun þessara fiskistofna. Við eigum að stefna markvisst að lokun Norðaustur-Atlantshafsins fyrir fiskiskipum annarra en strandríkja svæðisins, Grænlands, Íslands, Færeyja og Noregs.

Úr því að við gátum samið frið við Norðmenn um Jan Mayen, getum við líka samið við þá, Færeyinga og Grænlendinga um hinn víðari sjóndeildarhring utan okkar 200 mílna. En á þessu er því miður engin sjáanleg hreyfing.

Í þess stað er tíminn drepinn með langdregnum viðræðum við Norðmenn um skiptingu hugsanlegs olíugróða við Jan Mayen. Samningur um olíuna er svo sem betri en ekki neinn, en þá helzt sem undanfari fleiri samninga.

Athyglisvert er, að málgögn ríkisstjórnarinnar og Morgunhlaðið sameinuðust í áróðursherferð fyrir norska samningnum löngu áður en efnisatriði hans voru gerð kunn. Þá gáfu þessir aðilar í skyn, að samningurinn væri okkur hagstæður.

Þetta var ójafn leikur. Annars vegar var þjóðinni neitað um vitneskju og hins vegar var henni boðuð trú. Fyrir bragðið hafa samningamenn haft frið til að dunda á villigötum væntanlegs olíugróða við Jan Mayen.

Hart er, að þessir menn og íslenzk stjórnvöld skuli ekki sjá, að enn brýnna er að semja við Norðmenn um stjórn fiskveiða á opnum hafsvæðum, sem liggja milli 200 mílna efnahagslögsögu beggja þjóðanna.

Við gætum til dæmis samið um helmingaskipti, auk þess sem við þyrftum einhverja tryggingu gegn hugsanlegri ofveiði Norðmanna þeirra megin, auðvitað með hliðstæðum fyrirvörum af þeirra hálfu. Um þetta ætti að vera létt að semja.

Ekkert hefur heldur heyrzt um, að Ísland hafi lagzt harkalega á sveif með Argentínu, sem hefur á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna krafizt réttar strandríkja yfir fiskistofnum, sem færast inn og út fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu.

Því miður eru réttargæzlumenn okkar orðnir dasaðir eftir hlaupin úr þremur mílum í fjórar, tólf, 50 og síðast 200. Það er eins og þeir haldi, að einhver lokasigur sé unninn í fiskveiðirétti og nú sé friður að gamna sér við olíugróða.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið