Leppstjórn glæpamanna

Punktar

Samtök landflótta stjórnarandstæðinga frá Írak hafa eindregið mótmælt þeim ráðagerðum Bandaríkjastjórnar að setja bandaríska herstjórn yfir Írak í heilt ár með aðstoð heimafenginna glæpamanna, það er að segja embættismanna, herforingja og lögregluforingja úr Baath flokknum, flokki Saddam Hussein forseta. Stjórnarandstæðingar telja nauðsynlegt að skipta út valdhöfum og hreinsa alla Baathista úr opinberum embættum. Þeir telja fáránlegt, að Bandaríkin skuli vilja vernda völd stuðningsmanna Saddam Hussein. Þeir óttast líka, að Tyrkjum verði þakkaður stuðningur við fyrirhugaða innrás með því að leyfa þeim að hernema lönd Kúrda í norðurhluta landsins. Ennfremur óttast þeir, að óbreytt stjórnkerfi leiði til þess, að Sjítar og Kúrdar fái ekki völd til jafns við hlutfall sitt af íbúafjölda landsins. Um þetta var fjallað í Observer í gær.