Lesið milli áramótalína.

Greinar

Áramótahugleiðingar eru gott dæmi um, að orð má nota til að dylja skoðanir. Í breiðsíðum stjórnmálaleiðtoganna um þessi áramót var ekki vikið einu orði að krossgötum stjórnarsamstarfsins milli jóla og nýárs.

Alþýðubandalagsmenn höfðu þá frumkvæði að hugmyndum um þingrof í janúar og kosningar í marz. Þeir þóttust vita, að ríkisstjórnin væri enn í svo góðu áliti, að hún mundi fá nýtt fjögurra ára umboð í kosningum.

Samt kom í ljós, að hugmyndin átti ekki nægu fylgi að fagna. Meðal stjórnarsinna í Sjálfstæðisflokknum er vaxandi óbeit á tilhugsuninni um sérstakt framboð. Og án slíks væri tilgangslaust að efna til kosninga.

Albert Guðmundsson hefur sagt, að af hans hálfu komi ekki til greina að bjóða sérstaklega fram til borgarstjórnar. Og Friðjón Þórðarson hefur skýrt tekið fram, að sérframboð hans til alþingis komi ekki til greina.

Svo gæti vel farið, að marzkosningar mundu einmitt sameina Sjálfstæðisflokkinn og þar með fella ríkisstjórnina, en ekki veita henni það nýja fjögurra ára umboð, sem stuðningsmenn þingrofs sækjast eftir.

Hugmyndir þessar um þingrof og kosningar hafa tafið samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir um áramótin. Alþýðubandalagið ljáði ekki máls á neinu, meðan hugmyndirnar væru viðraðar milli stjórnaraðila.

Marklaust er að spá einkunnarorðunum, sem ríkisstjórnin hefði gengið undir til kosninga. Þau hefðu vafalaust orðið töluvert hressilegri en þau, sem við sáum í áramótahugleiðingum leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna.

En nú virðist ljóst, að ekki verði gengið til kosninga. Og þeir Svavar Gestsson og Steingrímur Hermannsson hafa tjáð okkur, að fiskverð muni hækka og gengi krónunnar lækka, hugsanlega samhliða ýmsu krukki á öðrum sviðum.

Enn einu sinni er ástæða til að vara við sumum hugmyndum ráðherra. Til dæmis væri hreint glapræði að víkja af vegi fullrar verðtryggingar fjárskuldbindinga, núna þegar við erum þó komin meira en hálfa leið til árangurs.

Í sjálfu sér er ástandið ekki afleitt og allra sízt, ef miðað er við fyrri áramót og fyrri ríkisstjórnir. Þjóðin hefur það í stórum dráttum mjög gott, svo sem brjáluð jólakauptíðin leiddi greinilegast í ljós.

Hverju sem það er að þakka, þá hefur þjóðarhagur og kaupmáttur launa gert örlítið betur en að standa í stað og einnig örlítið betur en hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum. Slíkt má teljast gott í kreppunni.

Mismunur okkar og nágrannanna er, að við höfum fulla atvinnu og fjórfalda verðbólgu. Hið fyrra er sumpart fengið með því að flytja út atvinnuleysi til þeirra. Og hið síðara er áratuga gömul staðreynd, nánast hornsteinn.

Leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu eru í stórum dráttum sammála um, að tvær hættur séu alvarlegar. Önnur er þensla ríkisbáknsins umfram burðarmátt atvinnulífsins. Hin er vöxtur erlendra skulda umfram innlendar orkuframkvæmdir.

Ef hægt er að stöðva þetta tvennt, svo og halda fullri atvinnu og koma á fullri verðtryggingu, er ekki svo nauið, hvort verðbólgan er þreföld eða fimmföld. Hún er og verður raunar eins hefðbundin og áramótagreinar leiðtoga, er dylja það, sem þeir meina, og skilja okkur eftir engu nær um neitt, sem máli skiptir.

Jónas Kristjánsson.

DV