Létta ljúfa leiðin

Greinar

Ríkisstjórnin hefur valið þægilegu leiðina við gerð góðærisfrumvarps til fjárlaga. Hún ætlar að leyfa ríkisrekstrinum að sigla með öðrum þáttum þjóðlífsins. Þannig slakar hún á spennunni, sem stafað hefur af fyrri tilraunum hennar til niðurskurðar á velferðarríkinu.

Tekjur ríkisins aukast umfram áætlun um þessar mundir, af því að tekjur í þjóðfélaginu fara ört vaxandi og skila sér að hluta í auknum skattgreiðslum til ríkisins. Þennan tekjuauka getur ríkið notað á ýmsa vegu, til að lækka skatta, auka velferð eða jafna halla.

Ríkisstjórn hyggst ekki láta allt laust. Hún reynir að halda í þann sparnað, sem náðst hefur með fyrri niðurskurði, en ætlar ekki að leggja í ný átök við hagsmunaaðila um viðbótarsparnað. Hún hyggst fyrst og fremst nota gróðann til að jafna hallann á ríkisrekstrinum.

Heilbrigðismálin eru gott dæmi um létta og ljúfa stefnu hins nýja fjárlagafrumvarps. Kostnaður við þau á að aukast um einn milljarð króna, úr 50 milljörðum í 51 milljarð. Í heild mun því sá málaflokkur nokkurn veginn fylgja tekjuaukningunni í þjóðfélaginu.

Í veikindageiranum verður eigi að síður rekið upp ramakvein út af þessum tölum. Þessi geiri er orðinn að peningalegum fíkniefnasjúklingi, sem þarf alltaf meira og meira dóp til að komast í vímu og fær hörð fráhvarfseinkenni, ef síaukið peningaflæði er truflað.

Með strangari aga á fjármálunum hefði ríkisstjórnin getað notað góðærið til að ná tekjuafgangi í ríkisrekstrinum, eins og fyrirtæki gera í einkarekstrinum, og notað hann til að grynnka á skuldum ríkisins, sem hafa orðið óþægilega og hættulega miklar á síðustu árum.

Með algeru agaleysi í fjármálunum, svo sem tíðkast á kosningaárum, hefði ríkisstjórnin getað notað góðærið til að auka umsvif ríkisins og halda óbreyttum halla á ríkisrekstrinum. En kosningar eru ekki fyrirsjáanlegar á næsta ári og því er farið bil beggja í þenslunni.

Ríkisstjórnin gefur sem minnstan höggstað á sér með því að velja léttu ljúfu leiðina milli hinna ýmsu sjónarmiða. Þannig er fjárlagafrumvarpið ein af birtingarmyndum hagnýtrar stjórnarstefnu, sem ekki miðast við hugmyndafræði, heldur hagar seglum eftir vindi.

Alls engin hugmyndafræði er í fjárlagafrumvarpinu. Ekki er hægt að segja, að það sé til hægri eða vinstri. Allir hugmyndafræðingar hljóta að vera andvígir því, hver á sínum forsendum. Raunverulegir hægri menn og raunverulegir vinstri menn munu sjá á því annmarka.

Stjórnmálin eru smám saman að afklæðast hugmyndafræði. Enginn veit lengur, hvort Sjálfstæðisflokkurinn er vinstra megin við Alþýðubandalagið eða ekki. Helzt vita menn, að Alþýðuflokkurinn sé hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn, miðað við næstsíðustu stjórn.

Stjórnmálamenn selja sig í auknum mæli sem farsæla forstjóra, sem ekki freistist til að reyna að gera stóra hluti til góðs eða ills, heldur sigli fremur lygnan sjó. Þess vegna verður hugmyndafræðilaus meðalvegur yfirleitt fyrir valinu, svo sem í fjárlagafrumvarpinu.

Oft hefur verið lagt til, að fjárlagadæmið verði stokkað upp og hugsað á nýjan leik. Það eigi ekki að vera eins konar náttúrulögmál, að rekstrarfé ríkisins skiptist í nokkurn veginn óbreyttum hlutföllum frá ári til árs milli málaflokka og jafnvel milli undirliða í málaflokkum.

Fjárlagafrumvarpið felur í sér þá stefnu, að bezt sé að hafa hlutföllin eins og þau hafa alltaf verið og að sigla jafnan þá leið, sem léttust er og ljúfust hverju sinni.

Jónas Kristjánsson

DV