Léttar æfingar vinstra samflots

Greinar

Horfur á vinstra samfloti hafa heldur vaxið með haustinu eftir vinsamlega meðferð framkvæmdastjórnar Alþýðubandalagsins á málinu í upphafi þessa mánaðar. Má búast við, að jákvætt verði tekið í þetta umdeilda mál á landsfundi bandalagsins í næsta mánuði.

Komið hefur í ljós, að andstaðan er fyrst og fremst í þingflokki bandalagsins. Sú andstaða var ítrekuð í síðustu viku á sameiginlegum fundi þingflokks og framkvæmdastjórnar. Talið er, að einungis þrír eða fjórir þingmenn bandalagsins séu fylgjandi samfylkingu.

Hafa verður í huga, að þingflokkurinn er afar sterkt afl, skipað fólki, sem meira eða minna á sín kjördæmi. Þingmenn bandalagsins eru eins og margir fleiri þingmenn meira gefnir fyrir að gæta meintra hagsmuna úr héraði en að gæta málefnahagsmuna flokksins.

Sem dæmi má nefna Steingrím Sigfússon, sem er einn harðasti stuðningsmaður kvótakerfisins og afsals auðlinda hafsins í hendur útgerðarmanna. Um önnur mál má segja, að hann sé í þeim öllum á þveröfugri skoðun við sjónarmið hins flokksins, Alþýðuflokksins.

Það léttir málið í þessari umferð, að sveitarstjórnarkosningar eru í aðsigi á vori komanda, en ekki alþingiskosningar. Málefna- og hagsmunaágreiningur, sem einkennir þingstörf, skiptir minna máli í sveitarstjórnum, þar sem tæknileg og lítt pólitísk atriði vega þyngst.

Þess vegna er sveitarstjórnarlið Alþýðuflokks og Alþýðubandalags víða komið fram úr þjóðmálafólki sömu flokka. Í flestum stórum bæjum landsins er búizt við sameiginlegu framboði, sums staðar með Framsóknarflokknum og annars staðar hugsanlega án hans.

Það flækir málið, að í senn er verið að tala um vinstra samflot með Framsóknarflokknum að hætti Reykjavíkurlistans, ýmist með eða án Kvennalistans, og svokallað A-samstarf, þar sem Framsóknarflokkurinn er ekki með í spilinu og sums staðar ekki Kvennalistinn heldur.

Skilaboðin inn í framtíðina til næstu alþingiskosninga að hálfu öðru ári liðnu væru ákveðnari, ef samstarfslínurnar væru ekki svona fjölbreyttar í undirbúningi sveitarstjórnarkosninganna. En þetta endurspeglar, að tengingar í grasrótinni eru með ýmsum hætti.

Þar sem Framsóknarflokkurinn er ekki með í vinstra samfloti, mun hann í langflestum tilvikum mynda meirihluta í hina áttina, ef hann er í aðstöðu til að vega salt milli tveggja vængja. Hann gerir það bara til að sýna fram á, að án sinnar aðildar sé samflotið marklaust.

Varla fer framhjá neinum, að Framsóknarflokkurinn er ekki minna hamingjusamur í landsstjórninni með Sjálfstæðisflokknum en hann er í borgarstjórn Reykjavíkur með vinstri flokkunum. Framsóknarflokkurinn er ævinlega hamingjusamur í stjórnaraðstöðu.

Í landsmálum er styttra frá Framsóknarflokknum yfir lækinn til Sjálfstæðisflokksins en yfir jökulfljótið til Alþýðuflokksins. Alþýðubandalagið er framsóknarmegin þessa jökulfljóts. Allt þetta má greinilega og hversdagslega sjá af framgöngu manna á alþingi.

A-samstarf á landsvísu á langt í land og enn frekar vinstra samstarf yfirleitt. Á landsvísu er auðveldara að samfylkja Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, heldur en Alþýðuflokknum og Alþýðubandalaginu. Þetta er bara það, sem allir sjá, sem sjá vilja.

Raunar kemst ekki hreyfing á samflot í þingkosningum fyrr en menn geta farið að meta, hvernig léttu æfingarnar í sveitarstjórnarkosningunum hafa tekizt eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV