Léttúð í dauðagildrum

Greinar

Talsmaður Spalar spurði nýlega í fjölmiðlum, hvort slökkviliðið í Reykjavík teldi, að Spölur ætti að borga brunavarnir fyrir það í göngunum í Hvalfirði. Talsmaður Bláa lónsins sagði skömmu síðar í fjölmiðlum, að “fullnægjandi” öryggis væri gætt í lóninu.

Það er tízku hjá mörgum, sem hafa komizt til manna-eða peningaforráða, að vera kokhraustir, þegar vanda ber að höndum. Sjaldgæft er þó, að menn tali af slíkri léttúð á almannafæri um mikinn ábyrgðarhluta eins og þessir tveir hafa hvatvíslega gert að undanförnu.

Hlutur talsmanns Bláa lónsins er að því leyti verri, að Bláa lónið er sagnfræðilega viðurkennd dauðagildra. Þar hafa átta manns farizt á hálfum öðrum áratug eða um það bil einn maður á tveggja ára fresti. Það hæfir ekki aðstandanda þess að tala af léttúð um slík mál.

Þegar næstsíðasta dauðsfallið bar að höndum, lentu talsmenn Bláa lónsins í deilu við eftirlitsaðila, sem töldu öryggi að ýmsu áfátt í lóninu. Tilfærsla lónsins á nýjan stað eftir tvær vikur verður eðlileg afleiðing langvinnrar umræðu um reynsluna af ýmiss konar háska.

Sumir eru drukknir og aðrir veikir. Sumir fara yfir girðingar og aðrir lesa ekki eða geta ekki lesið lesið viðvörunarorð. Lónið er ekki gegnsætt og gufa byrgir mönnum sýn. Dýpi er snögglega breytilegt og hiti er snögglega breytilegur. Allt eru þetta áhættuþættir.

Jafnvel þótt farið sé í hvívetna eftir því, sem samkomulag næst um milli Bláa lónsins og eftirlitsaðila í öryggismálum, er Bláa lónið hættulegur staður. Sagan sannar það og hún sannaði það enn í þessum mánuði, þegar fórst þar útlendingur, sem kunni ekki ensku.

Rökfræðilega er út í hött að fullyrða, að öryggi sé í lagi, þegar fólk ferst á stað, þar sem margir hafa áður farizt. Aðstandendur hafa einfaldlega ekki sett sér nógu harðar öryggiskröfur og magna með hverju mannslátinu hættuna á, að Bláa lónið verði illræmt.

Hvalfjarðargöngin eru ekki sagnfræðileg dauðagildra, því að þar hefur ekkert slys orðið. Umræðan um öryggismálin þar stafar af slysum í hliðstæðum göngum í frönsku Ölpunum. Verið er ræða um, hvort byrgja eigi brunninn áður en barnið dettur í hann.

Bent hefur verið á, að öryggisreglur í göngunum séu vægari en gengur og gerist í Evrópu vestanverðri. Deilt er um, hvort takmarka eigi enn frekar umferð bíla með hættuleg efni eða hvort hreinlega eigi að láta slíka umferð fara inn fyrir fjörðinn fremur en nota göngin.

Þegar reist er mannvirki, sem kallar á allt aðrar og meiri kröfur um brunavarnar en þau mannvirki, sem fyrir eru, hlýtur sá, sem rekur mannvirkið að bera ábyrgð á brunavörnum. Það ber vitni léttúðar að vísa til slökkviliðsins í Reykjavík um öryggi í göngunum.

Slökkviliðið í Reykjavík er útbúið til brunavarna í Reykjavík. Borgin getur með reglugerðum takmarkað frelsi manna til að reisa mannvirki, sem gera meiri kröfur um brunavarnir en slökkviliðið ræður við. Borgin hefur ekkert slíkt vald yfir Hvalfjarðargöngum.

Það er léttúðugt af talsmanni Spalar að segja Reykjavík eiga að kosta brunavarnir í Hvalfirði. Hann gæti rétt eins sagt, að Akranes ætti að borga brúsann. Auðvitað eiga brunavarnir í göngunum fyrst og fremst að vera hluti kostnaðar við gerð nýstárlegs mannvirkis.

Það vekur óhug, að menn í áhrifastöðum á viðkvæmum öryggissviðum skuli tala af eins fullkomnu gáleysi og talsmenn Spalar og Bláa lónsins hafa gert.

Jónas Kristjánsson

DV