Hafnfirðingar höfnuðu í gær stækkun álversins í Straumsvík. Í fyrsta skipti hefur stóriðjustefna beðið hnekki í almennri kosningu. Mjótt var á mununum, enda jós Alcan eins miklu fé í slaginn í Hafnarfirði og heill flokkur gerir á landsvísu í kosningunum í vor. Meðal annars hótaði auðhringurinn að loka sjoppunni. Hafnfirðingar stóðust þrýstinginn. Búast má við, að auðhringir fái oftar tækifæri til að hafa afskipti af lýðræðisferli í samfélaginu. Þeir gera það víða erlendis. En við höfum séð í Hafnarfirði, að kjósendur sáu ofurefli fjármagnsins og létu samt ekki hugfallast.