Örfáum mánuðum eftir að Hafskip lagði upp laupana eru kvartanir um skort á samkeppni í farmgjöldum kaupskiptaflotans farnar að hlaðast upp hjá verðlagsstjóra. Tilraunir hans til að fá verzlunina til að lækka vöruverð hafa strandað á auknum flutningskostnaði.
Verðlagsstjóri segir, að kaupmenn beri við, að skipafélögin hafi eftir gjaldþrot Hafskips sýnt “aukna hörku” í verðlagningu flutninga til landsins. Þetta dragi úr getu verzlunarinnar til að lækka vörurnar, þótt minni vaxtakostnaður ætti annars að gefa kost á því.
Verðlagsstjóri segir, að í bréfum kaupmanna til stofnunarinnar sé kvartað um, að fyrri afslættir skipafélaganna hafi verið stórlega rýrðir eða felldir niður. Bæði þeir og verðlagsstjóri eru í engum vafa um, hver sé skýringin á þessu, hvarf Hafskips af markaðnum.
Þessar kvartanir hlaðast upp, þótt eðlilegast væri, að farmgjöld skipafélaganna lækkuðu í kjölfar lækkaðs olíuverðs í stað þess að hækka. Sú lækkun hefði átt að nema nokkrum prósentum, en hennar hefur hvergi orðið vart. Þetta er auðvitað hið mesta alvörumál.
Með aðild ríkisstjórnarinnar hafa verið gerðir víðtækir samningar um frið á vinnumarkaði. Þessir samningar fela í sér, að verðlagi sé haldið niðri og það lækkað í kjölfar lækkunar vaxtakostnaðar fyrirtækja, olíuverðlækkunar og annarrar lækkunar.
Mikið er í húfi, að þetta aðhald nái fram að ganga á öllum sviðum. Ef það tekst ekki, fer verðbólgan yfir umsamin strik, sem hefnir sín í nýjum kauphækkunum, er aftur hefna sín í nýjum verðhækkunum, samkvæmt verðbólguspíralnum, sem hér hefur löngum ríkt.
Ef skipafélögin skorast undan merkjum og lækka ekki farmgjöldin til samræmis við lækkað verð á vöxtum og olíu, er að sjálfsögðu ástæða til að taka þau til sérstakrar meðferðar. Enda hefur verðlagsstjóri lofað, að skoða rækilega þetta sérkennilega ástand.
Að vísu veit hann eins og aðrir, að verðlagseftirlit í formi aðhalds og áminninga er ekki eins virkt og eftirlitið, sem felst í samkeppni. Samkeppnin, sem skipafélögin höfðu fyrir hálfu ári, er horfin. Og það lýsir sér í hærra vöruverði í landinu, í stað lægra vöruverðs.
Þetta hefur gerzt, af því að stóru skipafélögin tvö eru í lítilli samkeppni. Skipadeild Sambandsins er fremur lítið á almennum markaði, enda hefur hún sín föstu viðskipti hjá samvinnuhreyfingunni. Fátt bendir til, að deildin hyggist leggja til atlögu við risann.
Talsmaður Eimskipafélagsins hefur uppi þá vörn, að félagið hafi fram til þessa verið rekið með tapi og þurfi að komast í rekstrarjafnvægi. Auk þess hafi farmgjöldin í raun lækkað og þar á ofan skipti verðlækkun á olíu í Rotterdam litlu sem engu máli.
Menn taka þessar skýringar auðvitað með mátulegum efasemdum. Þær breyta því ekki, að stjórnvöld, sem nú glíma við rauðu strikin, horfa með söknuði til baka til Hafskips. Ef tekizt hefði að halda þeim rekstri á lífi, væri sennilega alls engin verðbólga hér á landi.
Minningin um Hafskip kann að hafa stuðlað að þeirri ákvörðun stjórnvalda að búa til þær aðstæður, að Arnarflug gæti hugsanlega haldið áfram að halda niðri verði á fargjöldum og farmgjöldum í flugi. Ef Arnarflug bilaði líka, færi verðbólgan án efa yfir öll rauð strik.
Af öllu þessu getur þjóðin lært, að sundrun kraftanna í samkeppni nær meiri árangri en sameining þeirra í einokun. Lexían liggur á borðinu, öllum aðgengileg.
Jónas Kristjánsson
DV