Leyfið þeim að deyja.

Greinar

Jafnvel á þessum síðustu og verstu tímum eru til í sjávarútvegi öndvegisfyrirtæki, sem skila hagnaði, meðan önnur ramba á barmi gjaldþrots. Það er flókinn veruleiki, sem býr að baki meðaltölum um afkomu í sjávarútvegi.

Gott væri að lifa í þessu landi, ef öll útgerð í landinu væri á vegum þeirra fyrirtækja, sem standa sig bezt. Þá væri hér sælutíð í stað svartnættis. Og unga fólkið gæti þá horft fullt af bjartsýni fram á veg.

Framfarir, framleiðniaukning og vaxandi velsæld þjóðarinnar byggjast ekki hvað sízt á “úrvali tegundanna” í fyrirtækjum. Vel rekin fyrirtæki eiga að þenjast út á kostnað hinna lélegu, sem eiga að dragast saman og hverfa.

Þessi töfrasproti samkeppninnar kostar auðvitað mikla röskun. En hvar væru Íslendingar nú staddir, ef tuttugasta öldin hefði ekki einkennzt af hnignun og risi fyrirtækja, búferlaflutningum og atvinnuskiptum manna?

Sárt er að missa vinnu og sárara er að flytja í önnur byggðarlög. En þetta hafa menn mátt þola hér á landi, með þeim ánægjulegu afleiðingum, að betri vinna hefur fengizt í öflugara plássi. Og öll sár hafa gróið.

Í seinni tíð gætir mjög þeirrar tilhneigingar að stöðva þessa þróun og frysta ástandið eins og það er. Þetta er gert undir merkjum byggðastefnu og atvinnuverndunar. Óskin er sú, að hagir fólks raskist sem minnst.

Svo er nú komið, að fyrirtækjum í sjávarútvegi er nánast bannað að verða gjaldþrota og hljóta eðlilegan dauðdaga. Ríkið hleypur upp til handa og fóta með lánum og styrkjum til að framlengja dauðastríð vonlausra fyrirtækja.

Með þessu er tafið fyrir, að umsvifin í sjávarútvegi færist í hæfari hendur. Með þessu er gefin út ávísun á stöðnun í framleiðni og léleg lífskjör. Í stað óþægilegrar röskunar til framfara kemur þægileg frysting stöðnunar.

Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hyggjast nú verja 50-60 milljónum króna af svokölluðum gengismun til að styðja fimmtán hallærisfyrirtæki í sjávarútvegi með lánum á hagstæðum vaxtakjörum.

Gengismunur ætti raunar að renna til fyrirtækja í sjávarútvegi í réttu hlutfalli við framlag þeirra til gjaldeyrisöflunar. En ríkisstjórnir hafa í vaxandi mæli seilzt til þessa fjár til hvers konar millifærslu.

Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefur réttilega mótmælt þessari síðustu ráðagerð, enda vita forustumenn þess, að hún hamlar gegn eðlilegri þróun atvinnugreinarinnar og gerir dýrari hvern þann fisk, sem unnt er að ná úr sjó.

Ef rökum Steingríms um byggðastefnu og atvinnuverndun væri beitt á fleiri sviðum, þannig að hvergi mætti fyrirtæki verða gjaldþrota í friði og hvergi mætti neinn verða fyrir röskun, yrði þjóðin öll fljótlega gjaldþrota.

Íslendingum bráðliggur raunar á, að fyrirtæki í sjávarútvegi fái á nýjan leik að verða gjaldþrota. Við þurfum að losna við sum þau fyrirtæki, sem nú flækjast fyrir öðrum. Ef til vill fimmtán, ef til vill fleiri.

Rekstur grínista á kostnað skattgreiðenda þarf að leggja niður á náttúrlegan hátt, svo að batni vaxtarskilyrði þeirra umsvifa, sem alvörumenn hafa með höndum. Og sjávarútvegsráðherradóm Steingríms þarf að leggja niður sem allra fyrst.

Jónas Kristjánsson.

DV