Bezt er, að fólk rasi ekki um ráð fram í mati á fregnum af lausagangi fyrrverandi leyndarskjala, þar sem fjallað er útlendum augum um samskipti Íslands við umheiminn. Hins vegar er upphlaupið út af Stefáni Jóhanni gagnlegt, því að það bendir á, hvað gera þarf.
Umræður á Alþingi í fyrradag um leyniskjalamálið beindust í stórum dráttum í réttan farveg. Margir þingmenn og ráðherrar bentu á, hve nauðsynlegt er, að íslenzk trúnaðarskjöl séu birt þjóðinni eftir föstum reglum að ákveðnum tíma liðnum. Það er kjarni málsins.
Því miður er upplýsingaskylda íslenzkra stjórnvalda miklu minni en í flestum nágrannalöndunum, til dæmis Norðurlöndunum og Bandaríkjunum. Verra er, að kerfiskarlar ráðuneytanna hafa látið semja frumvarpsdrög, sem staðfesta, að allt skuli alltaf fara leynt.
Þegar menn kerfisins festa ekki viðkvæm mál á blað eða gæta þess, að þau fréttist ekki út, eru þeir að magna vanþekkingu og grunsemdir þjóðarinnar. Auk þess eru þeir óbeint að sverta minningu látinna manna, í þessu tilviki Stefáns Jóhanns Stefánssonar forsætisráðherra.
Afleiðing leyndaráráttunnar hér á landi er, að utanríkissaga Íslands er skoðuð með útlendum augum. Sagnfræðingar fara í erlend söfn til að skoða skjöl, þegar leyndinni hefur verið létt af þeim. Þessi skjöl varpa dýrmætu ljósi á Íslandssöguna, en segja hana ekki alla.
Sérstaklega er varhugavert að horfa á söguna augum bandarískra embættismanna. Saga utanríkisþjónustu Bandaríkjanna er stráð stórslysum, sem stafa af, að fulltrúar þeirra hafa átt furðulega erfitt með að skilja hugarfar, venjur og stjórnmál í öðrum ríkjum.
Hugsanlegt er, að bandarískir embættismenn hafi á tímum kalda stríðsins talið, að sumir ráðamenn Íslands væru þeim sammála um, að Rússarnir væru að koma. Sú skoðun mundi þó ekkert segja um, hvort hinir íslenzku ráðamenn voru í raun sammála þeim eða ekki.
Hið gagnlega við bandarísku skjölin er, að fjölmiðlar geta sagt frá þeim og þar með þrýst á ráðamenn heima fyrir um, að settar verði traustar reglur um upplýsingaskyldu stjórnvalda og þar á meðal um birtingu leyndarskjala að liðnum aldarfjórðungi frá atburðum.
Sem betur fer er enn á lífi einn ráðherranna þriggja, sem fóru á sínum tíma vestur um haf til að ræða öryggismál við Bandaríkjastjórn. Brýnt er, að Eysteinn Jónsson verði nú fenginn til að gera opinbera grein og ítarlegri en áður fyrir rás hinna umtöluðu atburða.
Meirihluti þjóðarinnar mun frekar treysta því, sem gamli fjármálaráðherrann segir um mál þetta, en því, sem norskan sagnfræðing minnir að hafa séð í bandarísku safni. Einnig betur en því, sem stendur í skáldsögunni Atómstöðinni um sama efni eftir Halldór Laxness.
Liðinn er sá tími, að umtalsverður hluti þjóðarinnar sé reiðubúinn að stimpla fjölda manna sem landráðamenn fyrir að stýra utanríkisstefnu Íslands í þann farveg, sem að fjórum áratugum liðnum hefur í helztu dráttum reynzt vera farsæll og verður fram haldið.
Þjóðin var fyrir löngu undir það búin, að kerfið opnaði skjöl sín til skoðunar og birtingar, jafnt í hinum viðkvæmu varnarmálum sem í öðrum málum. Nú er komið tækifæri til að ítreka, að brýnt er að setja lög um nánast skilyrðislausa upplýsingaskyldu stjórnvalda.
Ógæfulegt er, að stjórnvöld komist áratugum saman upp með að telja þjóðina óhæfa um að draga ályktanir af upplýsingum um mikilvægustu þætti þjóðmálanna.
Jónas Kristjánsson
DV