Leyndó

Greinar

Gaman er að lesa, að dómsmálaráðherrann hafi blár af bræði farið mikinn um ráðuneytið í fyrradag vegna birtingar DV á yfirheyrslum úr líkmannamálinu, sem héldu raunar áfram í blaðinu í gær. Það sýnir, að mikilvægt gat hefur verið rofið á þagnarmúrinn, sem yfirvöld hafa hlaðið um ýmsa málaflokka.

Ráðherrann hefur raunar ýmsa liti í vopnabúri sínu. Síðast sáum við hann svartan af reiði í bakgrunni sjónvarpsviðtals við þáverandi borgarstjóra af tilefni niðurstöðu talningar í síðustu borgarstjórnarkosningum. Raunverulegt lýðræði gerir ráðherrann svartan, raunverulegt gegnsæi gerir hann bláan.

Almenningur í landinu getur fagnað, að fréttastofur landsins skuli vera sex, en ekki fimm eða jafnvel þrjár, eins og stóð til um tíma. Fyrir bragðið fær hann að fylgjast með mörgu fróðlegu og gagnlegu, sem yfirvaldið á ýmsum póstum kærir sig ekki um að verði á vitorði hins fyrirlitna pupuls.

DV fjallaði dögum saman um mál Þroskahjálpar á Suðurlandi án þess að fleiri fjölmiðlar kæmu til skjalanna. Þannig hefur raunar verið um fjölda mála það sem af er þessu ári. Pupullinn hefði ekki fengið að vita neitt um þau, ef fullburða fréttastofur landsins væru fimm en ekki sex.

Allir fjölmiðlar tóku hins vegar við sér, þegar farið var að birta yfirheyrslur úr líkmannamálinu. Af umræðunni er ljóst, að kerfið ætlar að reyna að komast að lekanum og reka puttann í gatið eins og í hollenzku sögunni, en þjóðfélagið er tiltölulega ánægt með lekann og vill hafa hann mikinn.

Sú vísa er aldrei of oft kveðin, að gegnsæi er ekki síðri hornsteinn lýðræðis en kosningar og málfrelsi. Gegnsæi er forsenda þess, að kjósendur skilji báknið í kringum þá og geti tekið skynsamlega afstöðu í kosningum. Þess vegna eiga gerðir stjórnvalda að vera galopnar fyrir fréttastofunum.

Flest kerfi vilja vera lokuð. Fjármagnsdýrkendur vilja loka skattskrám fyrir almenningi. Þeir vilja loka viðkvæmum upplýsingum um fjármagnsflæði fyrir almenningi. Þeir tala um friðhelgi einkalífs, rétt eins og peningar séu persónur. Allt ætti þetta að opna upp á gátt, svo að skíturinn sjáist.

Alkunnugt er, að lögreglan vill, að pupullinn viti sem minnst um rannsóknir hennar, jafnt í líkmannamálinu sem öðrum málum. Þess vegna er ekki ástæða til að treysta henni frekar en öðrum valdsmönnum ríkis og fjármála, sem verða ýmist bláir eða svartir af reiði, ef pupullinn fær fréttir.

Leyndarmál valdakerfa eru farin að tröllríða lýðræðinu. Án gegnsæis breytist lýðræði í kerfisræði og auðræði. Og fréttastofur fjölmiðla eru lykill að gagnsókn lýðræðisins.

Jónas Kristjánsson

DV