Útilokað er að meta varnarsamning, sem enginn fær að sjá. Geir H. Haarde getur ekki kallað hann góðan, því að hann getur ekki sannað það. Mér dettur ekki í hug að hafa orð hans og Jóns Sigurðssonar fyrir því. Ég veit ekki, hvort samningurinn tekur tillit til breyttra aðstæðna, þar sem líkur á innrás hafa nánast horfið, en líkur á hryðjuverkum hafa aukizt lítillega. Andstæðingar hersins geta glaðst yfir skyndilegu brotthvarfi hans, en allir hljóta að efast um leynisamning um öryggi Íslands. Óeðlilegt er, að öryggi okkar sé leyndarmál nokkurra pólitíkusa, sem við treystum alls ekki.