Leystur úr sjóða-læðingi

Greinar

Ákveðið hefur verið að leysa sjávarútveginn úr læðingi millifærslusjóðanna, sem lengi hafa hrjáð hann. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um þetta, samið af fulltrúum hagsmuna aðila, stjórnmálaflokka og sjávarútvegsráðuneytis.

Því miður er frumvarpið seint á ferð, þegar fáir starfsdagar eru eftir á Alþingi. Samt ætti að vera unnt að láta það ná fram að ganga, því að málið er lítt umdeilt. Gildistaka þess mundi marka tímamót í framfarasögu mikilvægustu atvinnugreinar landsins.

Sjóðakerfi sjávarútvegsins var orðið að skrímsli, sem nú liggur á höggstokknum. Fiskvinnslan var látin greiða alls kyns upphæðir framhjá fiskverði og hlutaskiptum í sérstaka sjóði, sem greiddu fé til útgerðar án samræmis við framlag hennar til verðmætasköpunar.

Sjóðirnir, sem ráðgert er að leggja niður, eru Aflatryggingasjóður, Tryggingasjóður fiskiskipa og Úreldingarsjóður fiskiskipa. Þar með verður afnumin mismununin, sem sjóðirnir framleiddu með millifærslum, svo og gífurleg pappírsvinna.

Samkvæmt frumvarpinu á fiskverðið, sem um er samið á hverjum tíma, að vera hið raunverulega verð, er fiskurinn kostar. Af fiskverðinu er dreginn frá ákveðinn hundraðshluti, sem rennur óskiptur til útgerðar til greiðslu fjármagnskostnaðar og ýmissa iðgjalda.

Í flestum tilvikum standa eftir til skipta 70% af heildarverðmæti hins landaða afla, en heldur lægra hlutfall í flestum tilvikum, þegar landað er í útlendum höfnum, 64% í ísfiski og 60% í kassafiski, svo að dæmi séu nefnd. Útreikningur á að verða sáraeinfaldur.

Sjóðakerfinu verður ekki endanlega útrýmt með lagafrumvarpi þessu. Eftir stendur Verðjöfnunarsjóður, sem ekki hefur megnað að gegna hinu upphaflega hlutverki að jafna sveiflur í afla og verðmæti einstakra tegunda sjávarafla. Æskilegt væri að leggja einnig hann niður.

Að vísu er skynsemi fólgin í sjóði, sem fleytir peningum ofan af feitu árunum til endurgreiðslu í mögru árunum. En reynslan sýndi, að sjóðurinn hafði ekki þessi áhrif og freistaði þar á ofan ráðamanna að færa fé milli deilda hans eftir því hvernig staða þeirra var.

Afnám millifærslusjóða af öllu þessu tagi hreinsar andrúmsloftið. Það auðveldar mat aðila á, hvernig þeir standa. Það ýtir athöfnum þeirra frá minna arðbærum sviðum til hinna, sem arðbærari eru. Það einfaldar reikninga og afnemur arðlausa skriffinnsku.

Sjóðakerfið er í höfuðdráttum meira en áratugar gamalt. Því var komið á fót á tímum, er ráðamenn höfðu mikla trú á, að leysa mætti margvíslegan vanda með tilfærslum og skipulagi að ofan. Þessi stjórnsemi hefur nú fengið þann dóm, sem hún á skilið.

Frumvarpið um afnám sjóðakerfisins er gott dæmi um ný viðhorf, sem fela í sér viðurkenningu á, að miðstýring leiðir jafnan til annarrar niðurstöðu en stefnt var að, og að einfalt og opið kerfi án millifærsla er líklegra til að ná hinum eftirsótta árangri.

Alþingi er í miklu tímahraki um þessar mundir, úr því að stefnt er að þingslitum 23. apríl. Því verður ekki auðvelt að knýja fram þetta markverða framfaramál, ef einhver fyrirstaða verður á þingi. Vonandi veitir þingheimur málinu ljúfa og hraða afgreiðslu.

Frumvarpið um afnám þriggja sjóða sjávarútvegsins er eitt mikilvægasta málið, sem er til meðferðar á því löggjafarþingi, sem lýkur í næstu viku.

Jónas Kristjánsson

DV