Liðskönnun í vor.

Greinar

Stjórnmálaflokkar okkar eru myndaðir um afstöðu til landsmála og sumpart utanríkismála. Samt er ekki auðvelt að sjá raunverulegan mismun þeirra, eins og hann kemur fram í hverju stjórnarsamstarfinu á fætur öðru.

Enn síður er hægt að sjá skýran mun stjórnmálaflokkanna í sveitarstjórnamálum, þar sem viðfangsefnin eru minna pólitísk og meira tæknileg. Enda gengur samstarfið þar milli fulltrúa oft þvert á flokkslínur.

Þegar skipti urðu á meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir fjórum árum, töldu sumir, að borgarhrun væri framundan, og aðrir, að Iðavöllur mundi rísa í borginni. Hvorug spáin varð að raunveruleika.

Í stórum dráttum hafa borgarmálin gengið sinn vanagang. Breytingar hafa orðið færri og viðaminni en búast hefði mátt við. Ekki hefur til dæmis orðið vart sveiflu frá hægri til vinstri, ef þær áttir hafa þá einhverja merkingu.

Sumpart stafar þetta af, að fyrrverandi meirihluti hafði gengið lengra til félagshyggju en títt er um flokka, sem taldir eru starfa á hægri væng stjórnmálanna. Gamli meirihlutinn var búinn að stela glæpnum frá hinum nýja.

Einnig veldur þessu, að í Reykjavík hefur mótazt öflug sveit embættismanna, sem eru tæknimenn og hafa oft betri lausnir á hraðbergi en þeir, sem hugsa í hugmyndafræðilegu mynztri. Enda eru borgarmál aðallega tæknileg.

Raunar er athyglisvert, hversu heppin Reykjavík hefur verið með embættismenn. Þeir falla ekki sem heild í hið kunnuglega alþjóðamynztur hinnar dauðu handar opinbers rekstrar, þótt hér eins og annars staðar sé misjafn sauðurinn.

Meirihluti þessa kjörtímabils hefur reynt að auka umsvif stjórnmálamanna í borgarmálum. Fjölgun borgarfulltrúa er sú afleiðing, sem mest ber á, en hugmyndir um víðtækar breytingar á stjórnkerfinu hafa ekki náð fram að ganga.

Ekki verður hins vegar séð, að þessum meirihluta hafi fylgt meiri losarabragur fjármála, sem stundum þykir fylgja svokölluðum vinstri flokkum. Þvert á móti hafa fjármálin verið í tiltölulega traustu horfi á kjörtímabilinu.

Núverandi meirihluti hefur hneigzt að því að spara undirbúningskostnað með því að leyfa byggingar á auðum svæðum í borginni. Fyrri meirihluti vildi hins vegar eiga slík svæði til góða til að mæta seinni tíma aðstæðum.

Meirihlutinn vill stækka borgina til austurs upp á svæðið norðan Rauðavatns, en fyrri meirihluti hafði ráðgert að stækka hana til norðurs á svæðið umhverfis Korpúlfsstaði. Þetta er eitt aðaldeilumál borgarstjórnar.

Hér hefur dæmigert tæknimál verið gert pólitískt. Annar hópurinn verður að vera á móti því, sem hinn er með, og öfugt. Þannig er búin til pólitísk deila, sem ekki á sér hugmyndafræðilega stoð í flokkakerfinu.

Í rauninni verður aðeins að litlu leyti kosið um borgarmál í kosningunum í maí. Alveg eins og í flestum öðrum sveitarfélögum landsins eru kosningarnar aðalæfing fyrir næstu alþingiskosningar, eins konar liðskönnun.

Stjórnmálaflokkarnir fá tækifæri til að kanna, hversu vel vélar flokksdeildanna eru smurðar; hvort flokksmenn geti náð saman til átaks, þrátt fyrir ýmsar innanflokkserjur: og hvernig jarðvegurinn er hjá almennum kjósendum.

Um þetta snýst kosningaspennan í vor.

Jónas Kristjánsson

DV