Líf í bíl og borg

Greinar

Reykjavík hefur aldrei verið þröng Evrópuborg. Hún hefur aldrei verið, er ekki og verður engar Feneyjar eða gotneski miðbærinn í Barcelona. Hinir frægu túristabæir Evrópu eru dauðir og orðnir að söfnum, en Reykjavík er efnahagshjarta íslenzka ríkisins, borg bíla, umferðar, mislægra gatnamóta.

Reykjavík mun ekki batna við að verða þrengd að evrópskum stöðlum. Ákvörðun um búa til þrengsli verður að taka, þegar hverfi er skipulagt, ekki löngu síðar. Að þétta ofan í fyrri byggð er áreiti, sem leiðir til ósamkomulags, ófriðarefna og á endanum til málaferla, þar sem menn heimta skaðabætur.

Þar á ofan leiðir þétting byggðar til erfiðari umferðar um æðar, sem voru hannaðar áður en gert var ráð fyrir þéttingu byggðar. Miklar nýbyggingar upp af Skúlagötu, við Mýrargötu og fyrir utan Ánanaust kalla á umferðarmannvirki, sem ekki hefur enn verið gert ráð fyrir í skipulagi borgarinnar.

Undarlegust er andstaða borgaryfirvalda við mislæg mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Með sömu röksemdum og nú eru hafðar uppi gegn þessum mislægu gatnamótum, hefði verið hægt að stöðva öll hin fjölmörgu mislægu gatnamót, sem reist hafa verið á borgarsvæðinu af minni þörf en þessari.

Gersamlega er fráleitt að halda fram, að bíll, sem ekið er viðstöðulaust á 60 km hraða meginþorra leiðar hans um bæinn, valdi meiri mengun en bíll, sem þarf að stöðva nokkrum sinnum, láta standa kyrran í gangi nokkrum sinnum og síðan að auka ferðina frá núll og upp í 60 km nokkrum sinnum.

Öllu viti bornu fólki má vera ljóst, að skrykkjótt umferð um gatnaljós veldur meiri mengun en viðstöðulaus umferð um mislæg gatnamót. Samt hafa oddvitar Reykjavíkurlistans haldið fram röngum staðreyndum á prenti um þetta mál og gera enn. Það eru ekki skoðanir, heldur röng meðferð staðreynda.

Þá er tryggingafélögunum ljóst, að meiri slys verða á hornum umferðarljósa en mislægra gatnamóta. Þessi fyrirtæki borga brúsann og eiga að vita, hvað er þeim sjálfum fyrir beztu. Eina umræðuhæfa röksemdin gegn mislægum gatnamótum er, að þau flytji vandann til. Slíkt gildir um öll mislæg gatnamót.

Úr því að Reykjavíkurlistinn hefur víðs vegar um borgina séð ástæðu til mislægra gatnamóta, sem flytja umferðarvandann til, hljóma röksemdir hans eins og flugusuð, þegar fulltrúar hans tala um flutning umferðarvandamála eingöngu vegna mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Mislæg gatnamót kalla alltaf á aðrar framkvæmdir. Þessi mislægu og mjög svo brýnu gatnamót kalla á lokun móta Lönguhlíðar, á bílahús við Tjörnina og undir Þingholtum.

Jónas Kristjánsson

DV