Líf og saga á vítisbarmi

Greinar

Eldgos eru snar þáttur í lífi Íslendinga. Oftar en einu sinni á áratugs fresti sjáum við myndir af nýju eldgosi í sjónvarpi og lesum um það í blöðunum. Við kippum okkur ekki upp við fréttir af leikvangi frumkrafta jarðskorpunnar, nema þeir séu að valda okkur tjóni.

Við förum að vísu sum hver í útsýnisflug eða bílferðir til jarðeldaslóða eins og hverjir aðrir túristar. Fjölmiðlar vakta staði, þar sem búist er við fréttum, og segja skilmerkilega frá hverju því, sem þar gerist. Þannig hefur í heila viku verið beðið eftir Skeiðarárhlaupi.

Okkur finnst þó á mörkum hins broslega, þegar roskin og virðuleg dagblöð í útlöndum fara í leiðurum á kostum í lýsingu á eldgosinu í Vatnajökli og boðun tilþrifamikils hlaups í Skeiðará. Þau fara alls ekki með rangt mál, en líta óreyndari augum á það en við gerum.

Í rauninni er það hrikalegur atburður, þegar náttúruöfl elds og ísa berjast um völdin inni í Vatnajökli. Og afleiðingar orrustunnar verða stórbrotnar, þegar hlaupið ryðst loks fram sandinn til sjávar. En þetta varðar sennilega ekki mannslíf og næsta fá mannvirki.

Í sögu landsins eru eldgos metin eftir tjóninu, sem þau valda. Sumra mestu gosanna er alls ekki getið í heimildum, af því að þau voru á árstíma eða við veðuraðstæður, sem leiddu hvorki til tjóns á mönnum né búfénaði. Tjónið hefur jafnan verið okkar mælikvarði.

Heimaeyjargosið var stórgos okkar tíma, ekki vegna magns gosefna, heldur tjónsins, sem það olli á mannvirkjum. Það var líka tímamótagos, því að þar var fyrst reynt að temja eldgos í sögunni. Þessi tamning tókst vonum framar og jók sjálfstraust okkar sem þjóðar.

Fyrst var vatni dælt á hraunjaðarinn og hraunstraumnum þannig stýrt að nokkru leyti. Að loknu gosi var lögð hitaveita frá hrauninu til að hita hús í endurreistum kaupstað. Við fórum að líta á eldgos eins og hveri eða eins og galið hross, sem má gera reiðfært.

Viðbrögðin við gosinu í Vatnajökli mótast af reynslu. Rofin eru skörð í þjóðveginn til að létta álagi af brúnum, sem verðmætastar eru mannvirkja á sandinum. Mannslífum verður ekki hætt til að bjarga eignum. Svo bíðum við og sjáum, hvernig náttúruöflunum tekst til.

Ef brúarhöf hverfa og stöplar spillast, tökum við að loknu hlaupi til óspilltra málanna og byggjum veginn að nýju. Síðan höldum við áfram að reka erindi okkar vestur og austur yfir sandinn eins og ekkert hafi í skorizt. Við höfum aðeins sætt yfirstíganlegu tjóni.

Við verðum á hverju ári fyrir margfalt meira tjóni af pólitískum völdum en við verðum fyrir áratugum saman af völdum náttúruaflanna. Við kippum okkur því ekki upp við að missa hundrað milljónir hér og hundrað milljónir þar vegna hamfara, sem við ráðum ekki við.

Því tökum við eldgosinu í Vatnajökli og hlaupinu í Skeiðará með hálfgerðri léttúð eða hóflegri forvitni og höfum dulið gaman af áhuga erlendra blaðamanna, sem horfa á atburðarásina eða skortinn á atburðarás af opnum huga þess, sem ekki hefur nálægðina og reynsluna.

The Times dáist í leiðara að þrautseigju þjóðar, sem heldur uppi siðmenntuðu lífi á einu óbyggilegasta svæði jarðarinnar og leikvelli tröllaukinna náttúruafla. Við sjálf höfum líklega meiri ástæðu til að dást að þrautseigju okkar að gera þetta á leikvelli sukksamra stjórnmála.

Það verða ekki eldgos og jarðskjálftar, sem ráða úrslitum um framtíð þjóðarinnar. Þar ræður skortur okkar á hæfni til að skipa eigin málum að skynsamlegum hætti.

Jónas Kristjánsson

DV