Lifandi eldhús á Akureyri
Friðrik V er frábær matstaður á Akureyri. Þar er eyfirzkt hráefni í hávegum haft, bláskel og þorskur úr sjónum og eyfirzkt nautakjöt. Kryddjurtir og matarjurtir úr náttúrunni, hvönn og blóðberg, hjartaarfi og krækiberjalyng, eyfirzk bláber og eyfirzk jarðarber. Úr þessu býr Friðrik Valur Karlsson til frábæra rétti. Til dæmis vermicelli með kúskel úr Þistilfirði, skyrfroðu með bláberjum, saltfisk með hömsum. Stundum fara tilraunir og nýbreytni úr böndum. Svo sem í þungu, léreftssíuðu skyri og í hráum jurtum, sem þarf að gera eitthvað fyrir. En þetta er lifandi eldhús. Kostar 8300 kr þríréttað.