Lífeyrissjóðir ginntir

Greinar

Þessa dagana er Reyðarál í herferð við að fá lífeyrissjóði landsmanna til að verða burðarás hluthafa í fyrirtækinu og hverfa þannig frá þeirri meginskyldu lífeyrissjóða að leggja egg sín í sem flestar körfur, svo að áhætta sjóðfélaga verði sem allra minnst í ellinni.

Reyðarál felur í sér langdýrustu stóriðjuáform, sem komið hafa fram í landinu. Norsk Hydro hefur dregið úr upphaflegum ráðagerðum sínum um hlutafjáraðild og aðrir erlendir fjárfestar hafa ekki verið í biðröð. Þess vegna er reynt að afla hluthafa á innlendum markaði.

Fáir aðilar aðrir en lífeyrissjóðir hafa fjárhagslega burði til að fjárfesta í fyrirtæki, sem kostar hundruð milljarða króna. Stjórnarmenn í mörgum þessara sjóða hafa sumir hins vegar lítið vit á fjármálum og eru því kjörin bráð fyrir þá, sem þurfa að ná sér í mikinn pening.

Tilgangur lífeyrissjóða er að safna peningum og ávaxta þá á traustan hátt, svo að sjóðfélagar eigi fyrir ellinni. Þetta gera sjóðirnir með því að festa peninga í öruggum pappírum, mestmegnis ríkistryggðum skuldabréfum og öðrum skuldabréfum, en minna í hlutabréfum.

Á síðustu árum hafa lífeyrissjóðir í auknum mæli fest peninga sjóðfélaga í útlöndum. Þannig hafa þeir dreift áhættunni enn frekar, svo að staðbundin kreppa á Íslandi skaði sjóðfélaga minna en ella. Atvinnulíf yrði samfellt að fara illa um öll Vesturlönd til að skaða sjóðina.

Andstæðan við þessa hugsun um dreifingu áhættu felst í að leggja mikið fé í eitt staðbundið fyrirtæki og standa þannig og falla með gengi þessa eina fyrirtækis. Slíkt ætti raunar að vera ólöglegt, því að lífeyrissjóðir bregðast þannig öryggishlutverki sínu gagnvart sjóðfélögum.

Hingað til hefur stóriðja á Íslandi verið reist fyrir erlent fé, ef frá er skilin aðild ríkisins að járnblendinu á Grundartanga. Þessar fjárfreku framkvæmdir hafa því lítið sem ekki skert möguleika okkar á að fjármagna annað framtak í landinu. Atvinnulífið hefur ekki verið svelt.

Á þessu verður breyting með kaupum lífeyrissjóða og annarra fjársterkra aðila á hlutafé í Reyðaráli. Þeir peningar verða ekki til ráðstöfunar til annars atvinnulífs í landinu. Fjármagnssvelti mun aukast hastarlega og leiða til aukins þrýsting á vextina, sem eru þó háir fyrir.

Innlend fjármögnun Reyðaráls mun skaða þjóðina til langs tíma. Minna fé en ella verður lagt í nútímalegar atvinnugreinar, sem skapa mikla atvinnu á háum launum. Athafna- og hugvitsmenn munu eiga erfitt með að fjármagna nýgræðing tuttugustu og fyrstu aldar.

Í staðinn er féð sogað inn í gamaldags fyrirtæki af því tagi, sem nú eru nærri eingöngu reist í þriðja heiminum, enda hafa þau tiltölulega hæga arðgjöf og greiða tiltölulega lág laun við bræðslupottana. Fjármögnun Reyðaráls er fávíslegt skref aftur á bak til nítjándu aldar.

Mest skaðast auðvitað Austfirðingar, sem eru að dæma börnin sín til framtíðaratvinnu við að skaka í bræðslupottum í stað þess að leita frama og fjár í atvinnugreinum nýrrar aldar. En þjóðin skaðast öll, því að nýju greinarnar fá minna fé en ella sér til vaxtar og viðgangs.

Með því að láta ginnast af fagurgala Reyðaráls eru stjórnendur lífeyrissjóða að leggja drög að lakari ávöxtun og meiri áhættu sjóðfélaga. Þessir stjórnendur eru að sýna fram á, að þeir séu sjálfir óhæfir til að ber ábyrgð á, að hagur sjóðfélaga verði sem beztur á elliárunum.

Reyðarál og hinir ginntu lífeyrissjóðir dæma þjóðina til hægari hagþróunar á nýrri öld. Þeir eru að leggja egg í eina körfu í stað þess að dreifa þeim sem víðast.

Jónas Kristjánsson

DV