Líflegur landsfundur.

Greinar

Fulltrúar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins munu eiga ýmissa kosta völ, þegar kemur að kosningu formanns og varaformanns flokksins. Ný framboð koma fram annan hvern dag. Og enn fleiri bíða færis í sviptingum landsfundarins.

Valdamiðstöðin í flokknum nýtur takmarkaðs trausts, enda fjölgar þeim stöðugt, sem sjá, að stefna hennar er, að betra sé að hafa mikil völd í litlum flokki en lítil völd í stórum. Fyrir þetta er hún kölluð flokkseigendafélag.

Öflugustu framboðin á landsfundi eru einmitt frá þessu félagi. Geir Hallgrímsson er langbezta formannsefni þess, einfaldlega af því að hann er formaður fyrir og mörgum fulltrúum mun þykja þungbært að rísa gegn slíkum.

Ragnhildur Helgadóttir er ekki síður heppilegt framboð af hálfu flokkseigenda til varaformennsku. Hún fellur nákvæmlega að þeirri kröfu líðandi stundar, að nú loksins verði konur valdar til áhrifa, jafnvel að öðru ójöfnu.

Uppreisnarmenn og stjórnarsinnar koma í annarri sveit, sem alls ekki er eins sterk á landsfundi og hún er meðal almennra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. En hún vill samt sína liðskönnun á landsfundi.

Formannsefni þessa hóps er Pálmi Jónsson og varaformannsefni væntanlega Friðjón Þórðarson, þótt sá síðarnefndi hafi ekki enn, þegar þetta er ritað, gefið neina yfirlýsingu um slíkt. Bæði eru þessi framboð öflug.

Að baki svífur náttúrlega hinn einstæði töframaður íslenzkra stjórnmála, Gunnar Thoroddsen, sem orðinn er nánast þjóðhetja, þrátt fyrir gerðir, misgerðir og vangerðir ríkisstjórnar sinnar, – eða kannski vegna þeirra.

Á milli þessara fríðu hópa er á landsfundi mikill fjöldi fulltrúa, sem seint og illa verða dregnir í dilka. Fjölmennir eru þar fulltrúar, sem eru andvígir ríkisstjórninni, en hafa jafnframt glatað trúnni á Geir.

Mikilvægi þessa hóps sést bezt af því, að á morgni fyrsta landsfundardags höfðu fyrrverandi ráðherrar flokksins og aðrir hornsteinar hans ekki enn látið verða af því að lýsa stuðningi við núverandi formann.

Sumir í þessum hópi gætu hugsað sér að fara í framboð til formanns eða varaformanns, ef þær aðstæður mynduðust á landsfundi, að á þau framboð yrði litið sem málamiðlun, er sæmilega breiður hópur fulltrúa gæti sætt sig við.

Af hálfu stjórnarandstæðinga utan flokkseigendafélags hefur Ellert B. Schram gefið hálfa yfirlýsingu um framboð í formennsku og Friðrik Sófusson heila yfirlýsingu um framboð í varaformennsku. Báðir höfða til ungra fulltrúa.

Erfiðara er að staðsetja framboð Sigurgeirs Sigurðssonar til varaformanns. Hann er ekki Engeyingur og ekki beinlínis í flokkseigendafélaginu, en stendur þó nálægt því og gæti dregið sig í hlé í þágu Ragnhildar.

Frá því að þetta er ritað og þangað til það er lesið, geta frambjóðendur verið orðnir fleiri eða færri. Sjálfur landsfundurinn verður svo vettvangur tilrauna til bandalaga milli einstakra hópa, til dæmis um gagnkvæman stuðning.

Þegar kemur að atkvæðagreiðslu á sunnudaginn, geta frambjóðendur verið orðnir allt aðrir en þeir, sem hér hafa verið nefndir. Fulltrúar geta alls ekki kvartað um, að líf og fjör og leiki skorti í flokki þeirra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið