Lífrænn sýndarveruleiki

Greinar

Bændasamtökin hafa komið sér upp nýrri vottunarstofu fyrir lífrænt ræktaðar afurðir til þess að koma fleiri bændum gegnum nálaraugað. Kröfur hinnar nýju vottunarstofu eru minni en annarra og byggjast eingöngu á stuttri reglugerð frá ráðuneytinu.

Áður var vottað hér á landi í samræmi við fjölþjóðlega staðla, sem bændasamtökunum þótti of strangir. Þess vegna gældu þau lengi við þá hugmynd að búa til nýtt hugtak, svonefndan vistvænan landbúnað, sem sparaði mönnum að gera miklar búskaparbreytingar.

Mikið grín er búið að gera að hugmyndum ímyndarfræðinga Bændasamtakanna um að búa til nýtt og séríslenzkt hugtak vistvæns landbúnaðar og reyna að selja venjulega búvöru á hliðstæðu yfirverði og lífrænt ræktaðar landbúnaðarafurðir hafa aflað sér.

Bændasamtökin fengu kvartmilljarðs króna styrk frá skattgreiðendum til að reyna að búa til sjónhverfingu vistvæns landbúnaðar. Þetta virðist ekki hafa tekizt nógu vel, því að samtökin eru nú aftur farin að tala um lífrænt ræktaðar fremur en vistvænar afurðir.

Nú hefur verið ákveðið að leysa málið með því að búa til sérstakar og auðveldar reglur um lífræna ræktun fyrir Ísland og skófla á þann hátt umtalsverðum hluta landbúnaðarins inn undir hugtak lífrænnar ræktunar. Reiknað er með, að neytendur láti blekkjast.

Búast má við, að margir bændur fari auðveldu leiðina í von um að fá verðmætisaukann, sem reynslan sýnir, að fylgir vottun um lífræna ræktun. Þess vegna mun nýja vottunin fara sigurför um landbúnaðinn, en gamla vottunin áfram verða vettvangur sérvitringa.

Þetta skiptir að því leyti litlu, að ekki er ætlazt til, að útlendingar taki mark á nýju vottuninni. Íslenzk búvara er ekki samkeppnishæf í útlöndum og þarf því ekki stimpla, sem útlendingar taka mark á. Það er nóg, að íslenzkir neytendur samþykki ódýru lausnina.

Bóndinn getur valið um að fara eftir nákvæmum reglum, sem taldar eru upp á meira en hundrað síðum eða fara eftir einföldum reglum, sem rúmast fyrir í nokkurra blaðsíðna reglugerð ráðuneytisins. Ekki þarf að spyrja að niðurstöðum í því vali, ef áhugann skortir.

Verkaskiptingin verður því sú, að bændur, sem vilja af hagkvæmnisástæðum skreyta sig með fjöðrum lífrænnar ræktunar, fara þægilegu leiðina, en hinir, sem fara út í lífræna ræktun af hugmyndafræðilegum ástæðum, fara þá leið, sem alþjóðlega er viðurkennd.

Vegna komu landbúnaðarkerfisins að málinu má strika yfir drauma sumra bænda um að koma vöru sinni á erlendan markað á forsendum sérstöðu Íslands sem hreins og ómengaðs lands. Það má nefnilega alltaf búast við, að upp komist um strákinn Tuma.

Þegar kemur í ljós, að Íslendingar eru að reyna að koma vörum inn á útlendinga á fölskum forsendum, verður svarið hart. Miklu líklegra er, að værukærir neytendur á Íslandi sætti sig við útþynnta útgáfu af lífrænni ræktun. Þeir verða fórnardýr nýja kerfisins.

Neytendur munu sjálfsagt bregðast við á misjafnan hátt eftir þeirri áherzlu, sem þeir leggja hver fyrir sig á lífræna ræktun. Sumir munu kjósa ódýrari vöru, sem lítið hefur verið fyrir haft, og aðrir munu kjósa dýrari vöru, sem mikið hefur verið fyrir haft.

Þegar mismunandi reglur um vottun eru samhliða í gangi, er mikilvægt fyrir neytendur að átta sig á, hvort veruleiki eða sýndarveruleiki er að baki stimpilsins.

Jónas Kristjánsson

DV