Lífrænt eða vistvænt

Greinar

Lífræn framleiðsla á matvælum er skilgreint hugtak, sem fer eftir alþjóðlegum stöðlum, er settir hafa verið af alþjóðasamtökum um framleiðslu lífrænna afurða. Hugtakið felur meðal annars í sér, að einungis er notaður lífrænn áburður og beitt er svonefndri skiptiræktun.

Sérstakar og sjálfstæðar vottunarstofur ábyrgjast, að farið hafi verið eftir reglum, svo að hægt sé að markaðssetja afurðirnar undir fána lífrænnar framleiðslu. Það gefur hærra verð en ella fyrir vöruna á alþjóðlegum markaði og gerir ræktunarfyrirhöfnina arðbæra.

Lífræn ræktun hefur verið stunduð á nokkrum stöðum á landinu um nokkurra ára skeið, einkum í Mýrdal. Fimm sveitarfélög hafa komið á fót vottunarstofu, sem fullnægir hinum alþjóðlegu stöðlum. Í stjórn stofunnar eru líka fulltúar Verzlunarráðs og Neytendasamtakanna.

Stofnanir landbúnaðarins eru að reyna að leggja stein í götu lífrænnar ræktunar. Meðal annars neitar digurt sjóðakerfi landbúnaðarins að styðja lífræna ræktun eins og aðra ræktun. Þá hafa bændur í lífrænni ræktun orðið að kosta ráðgjöf á því sviði og fá hana frá útlöndum.

Óháðar vottunarstofur eru eitt af því, sem fer í taugar ráðamanna landbúnaðarins. Þeir vilja, að stofnanir landbúnaðarins votti sjálfar hér eftir sem hingað til, að allt sé hollt og gott, sem frá landbúnaðinum kemur, en ekki fengnir til þess óháðir aðilar eins og í öðrum greinum.

Sem mótleik í vandamáli þessu hafa stofnanir landbúnaðarins fengið sér ímyndarfræðing til starfa og búið til hugtak, sem heitir vistvænn landbúnaður. Það hugtak á sér enga alþjóðlega skilgreiningu og engar alþjóðlegar reglur eru um störf vottunarstofa á því sviði.

Stofnanir landbúnaðarins munu ekki geta selt útlendingum íslenzkar landbúnaðarafurðir á yfirverði undir óljósu flaggi vistvæns landbúnaðar. Útlendingarnir munu spyrja, hvað sé átt við með því og hvaða óháður vottunaraðili ábyrgist, að rétt sé farið með.

Ímyndarfræðingur landbúnaðarins hefur hins vegar selt formönnum þingflokka hugmyndina og fengið þá til að leggja fram frumvarp, sem felur í sér, að kvartmilljarði af fé ríkis og opinberra sjóða verði sóað til að markaðssetja íslenzkan landbúnað sem vistvænan og lífrænan.

Í frumvarpinu og greinargerð þess er ruglað fram og aftur um vistvænan og lífrænan landbúnað, oftast í sömu málsgreininni. Að baki liggur óskhyggja um, að unnt verði að selja óskilgreindan landbúnað sem skilgreindan, svokallaðan vistvænan landbúnað sem lífrænan.

Það er ekki nýtt, að formenn þingflokka séu ginntir til að flytja saman illa undirbúin mál. Stjórnarskráin var næsta dæmið á undan. Senn fer að verða ástæða til að stinga við fótum í hvert sinn, sem nöfn þingflokksformanna sjást saman undir frumvarpi á Alþingi.

Skynsamlegt er að salta þetta vitlausa frumvarp. Í staðinn þarf að skilgreina muninn á lífrænum og svonefndum vistvænum landbúnaði og kanna markaðsmöguleika hvors um sig á alþjóðlegum vettvangi. Þá kemur fljótlega í ljós, að einungis lífrænn landbúnaður á möguleika.

Ráðamenn landbúnaðarins eru vanir að ráða sjálfir málum af þessu tagi án atbeina annarra aðila. Þeir eru ófærir um að skilja, að óháðir aðilar og samtök neytenda og verzlunar þurfa að vera málsaðilar til að eitthvert vit verði í markaðssetningu á nýjum sviðum í landbúnaði.

Ráðamenn landbúnaðarins stunda sjónhverfingar og hugtakarugling. Þeir geta ginnt þingmenn, sem eru síður en svo neytendavænir, en fáa aðra og sízt útlendinga.

Jónas Kristjánsson

DV