Lífróður að feigðarósi.

Greinar

Engin skýring hefur fengizt á ofurkappi þingmanna Sjálfstæðisflokksins við skyndiafgreiðslu framleiðsluráðslaga landbúnaðarins á síðustu dögum Alþingis í sumar. Hvers vegna gengu þeir harðar fram en framsóknarþingmenn, sem sumir efuðust um gagn frumvarpsins?

Enn síður er hægt að skilja viðbrögð formanna flokks og þingflokks sjálfstæðismanna við fyrstu afleiðingu laganna, stórhækkun kjarnfóðurgjalds. Þeir virðast halda, að kjósendur við sjávarsíðuna og neytendur almennt trúi því, að hækkunin sé ákvörðun Framsóknarflokksins.

Áram saman hafa stjórmnálamenn verið varaðir við áformum landbánaðarmafíunnar, sem hefur virki sín í framleiðsluráði, búnaðarfélagi, stéttarsambandi og ráðuneyti. Hún hefur stefnt að aukningu eigin valda og yfirfærslu ríkisrekstrar hefðbundinna búgreina á allar búgreinar.

Landbúnaðarmafían vill stöðva verðsamkeppnina, sem hingað til hefur ríkt í eggjum, alifuglum og svínum. Hún vill stöðva, að upp rísi stórvirkir framleiðendur, sem lækka verð fyrir hinum. Hún vill, að hver framleiðandi fái kvóta og einokunarverð fyrir það magn.

Um leið vill landbúnaðarmafían stöðva minnkunina á neyzlu hefðbundinna afurða nautgripa- og sauðfjárræktar á kostnað neyzlu eggja, alifugla og svína. Hún vill nota kjarnfóðurgjaldið til að gera hefðbundnu afurðirnar ódýrari og afurðir hliðarbúgreinanna dýrari.

Ennfremur vill landbúnaðarmafían ná betri tökum á peningastraumum landbúnaðarkerfisins. Með 130% kjarnfóðurgjaldi nær hún til sín verulegum fjármunum, sem hún getur síðan skammtað á þann hátt, að gæludýrum sé gert hærra undir höfði en hinum, sem malda í móinn.

Við höfum reynsluna frá síðasta ári. Þá greiddu eggja-, alifugla- og svínabændur 79 milljónir króna í kjarnfóðurgjald til mafíunnar og fengu hálfa milljón til baka. Afgangurimi fór í hefðbundna landbúnaðinn, þar á meðal til niðurgreiðslu á verði áburðar.

Loks vill landbúnaðarmafían reyna að koma í lóg offramleiðslu fjölda grænfóðurverksmiðja, sem hafa verið reistar fyrir opinbert fé á síðustu árum. Í því skyni lýgur ráðherra því, að heimsmarkaðsverð á kjarnfóðri sé falskt verð, niðurgreitt af Efnahagsbandalaginu.

Hið rétta er, að Efnahagsbandalagið greiðir niður verð á sínu kjarnfóðri til að gera það samkeppnishæft við annað kjarnfóður frá löndum, sem hafa meiri framleiðni á þessu sviði og geta selt á lágu heimsmarkaðsverði, án þess að nokkrum niðurgreiðslum sé beitt.

Engin ástæða var til að koma framleiðslustjórn landbúnaðarmafíunnar á egg, alifugla og svín. Markaðurinn hefur hingað til séð um að halda framleiðslu og eftirspurn í jafnvægi. Í hinum framleiðslustýrðu greinum sauðfjár og nautgripa hefur hins vegar ríkt geigvænleg offramleiðsla.

Áform landbúnaðarmafíunnar hafa oft komið í ljós í ræðu og riti, beint og óbeint. Ekki hefur heldur staðið á aðvörunum, sem hefur verið beint gegn þessum ráðagerðum. Til dæmis voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins varaðir við lögunum, sem þeir knúðu í gegn.

Enginn vafi er á, að lög þessi munu reynast neytendum afar dýr, þar á meðal kjósendum Sjálfstæðisflokksins í þéttbýli og við sjávarsíðuna. Þingmenn flokksins flutu ekki sofandi að þessum feigðarósi, heldur reru þangað hreinan lífróður. Á að líta á það sem sjálfseyðingarhvöt?

Jónas Kristjánsson

DV