Stundum lesum við um skelfilega ömurlegt líf forfeðra okkar fyrr á öldum og lesum um, hvernig langalangalangaömmur okkar áttu tíu börn og þar af lifðu tvö. Huldar Breiðfjörð hefur skrifað bók um ferðalag á Kínamúrnum, þar sem fram koma dapurleg lífsskilyrði sveitafólks í Kína nú á dögum. Einna beztu lýsinguna á ömurlegum aðstæðum í þriðja heiminum er að finna í ferðasögu Robert B. Kaplan, “Ends of Earth”, þar sem hann lýsir botnlausu vonleysi fólks, sem býr á ömurlegustu stöðum þriðja heimsins. Kannski var gamla Ísland forfeðranna ekki svo slæmt, ef við berum það saman við erlendan nútíma.