Fólk er ekki frá náttúrunnar hendi í stakk búið til að lifa nútímalífi. Vettvangur manna í nútíma er afar ólíkur vettvangi forfeðranna kynslóð fram af kynslóð. Við lifum ekki lengur í heimi erfiðis og náttúruafla, heldur í heimi frístunda og tækni, siðmenningar og lýðræðis.
Sjúkdómar eru aðrir en þeir voru á fyrri öldum. Drepsóttir ganga ekki lengur og veirur eru tæpast lengur meira en hvimleiðar. Í staðinn höfum við náð okkur í menningarsjúkdóma á borð við krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma, áfengissýki og aðrar fíknir.
Sameiginlegt einkenni slíkra nútímasjúkdóma er, að þeir stafa sumpart af, að sumt fólk tekur í arf líkamlega vangetu til að fást við ýmiss konar aðstæður nútímans og sumpart af því að sumir fara verr en aðrir út úr samskiptum sínum við þessar aðstæður nútímans.
Fjármál fólks eru margfalt flóknari en vöruskipti forfeðranna á fyrri öldum. Menn kaupa og selja vinnu og þjónustu og þurfa að leggja höfuðið í bleyti til að greiða keisaranum ekki meira en keisaranum ber. Við hvert fótmál eru tækifæri til að misstíga sig í fjármálum.
Börnum og unglingum er ekki frekar kennt að fóta sig á hálum vegum fjármála nútímans en þeim er kennt að fóta sig á hálum vegum heilsunnar. Þrátt fyrir langa skólagöngu kunna menn tæpast að gera skattskýrslur og kunna lítið að haga sér á frjálsum markaði.
Nútíminn gengur fyrir þekkingu sem breytist í sífellu. Fólk býr ekki yfir tækni til að afla sér þessarar þekkingar á skömmum tíma eftir þörfum hverju sinni. Menn eru allt of illa læsir á upplýsingar. Þrátt fyrir langa skólagöngu höfum við ekki lært að læra.
Allt of margir flýja veruleikann og fela sig í heimi áfengis og annarra fíkniefna. Aðrir misþyrma heilsu sinni með röngum lifnaðarháttum, lítilli hreyfingu og lélegu mataræði. Sumir rústa fjármál sín með röngum ákvörðunum, byggðum á þekkingarskorti.
Velgengni þjóðarinnar í heild er háð því, að sem flestir kunni að fara með heilsu sína og umhverfi, geti hagað fjármálum sínum og innkaupum skynsamlega, séu færir um að stunda atvinnu nútímans, þoli miklar frístundir og sjái veruleikann að baki stjórnmála.
Samkvæmt nýrri skólastefnu menntaráðuneytisins á að bæta úr þessu. Það er hægar sagt en gert, því að hvorki eru til kennarar, sem kunna að kenna lífsleikni, né heldur eru til námsgögn. En allar ferðir hefjast með einu skrefi, einnig aðlögun okkar að nútímanum.
Nú er ætlunin að stefna að fræðslu um heilsu og umhverfi, fjármál og neytendamál, atvinnulíf og lýðræði, réttindi og skyldur, frumkvæði og sjálfstæði, þekkingartækni og upplýsingalæsi. Þetta eru auðvitað þarfari greinar en sumt af því, sem nú er kennt í skólum.
Með þátttöku í námskeiðum munu sumir kennarar geta tileinkað sér nýju greinarnar. En sumpart kostar þetta nýja kennara með ný viðhorf og nýja þekkingu. Samhliða þessu þarf að byggja upp námsgögn á sviðum, þar sem lítil og léleg eða engin eru til fyrir.
Nú þegar sjálf skólastefnan hefur verið sett fram, er næsta skrefið að finna þá, sem geta kennt kennurum og búið til námsgögn, sem henta ýmsum stigum skólakerfisins. Miklu máli skiptir, að í senn sé haldið vel á spöðunum og vandað vel til allra verka.
Ef vel tekst til, hefur verið efnt til byltingar á lífi og högum þjóðarinnar, sem ætti að gera henni kleift að ráða betur við næstu öld en þá, sem nú er að enda.
Jónas Kristjánsson
DV