Lífsreyndir landsknegtar.

Greinar

Þegar Tómas Árnason var ráðherra í síðustu ríkisstjórn, hélt hann verndarhendi yfir Sverri Hermannssyni kommissar í Framkvæmdastofnun ríkisins. Nú heldur Sverrir Hermannsson ráðherra verndarhendi yfir Tómasi Árnasyni kommissar.

Framkvæmdastofnunin er makalaust ríki í ríkinu. Ef kommissörum hennar finnst þjóðkjörnir alþingismenn ekki leggja nægilegt skattfé til vega, heimta þeir að fá að lána ríkinu mismuninn, þótt ríkið vilji ekki þiggja.

Sverrir Hermannsson sagði þá: “Þetta eru með öllu ótæk vinnubrögð eins og framkvæmdaþörfin er mikil.” Hann vildi, að kommissarinn úrskurðaði, hverjar væru almannaþarfir, en ekki þjóðkjörið alþingi eða ríkisstjórn.

Svona hugsa menn í stofnun, sem beinlínis er komið á fót til að hafa “félagslegan” banka, geti úthlutað ódýrum lánum til fáránlegra framkvæmda í því skyni að hjálpa vildarvinum í strjálbýlinu. Slíkt mega venjulegir bankar tæpast lengur.

Sverrir Hermannsson hefur í kosningaræðum bent Austfirðingum á að kjósa sig, af því að hann hafi útvegað þeim hitt og þetta í Framkvæmdastofnun. Þeir þurfi að þakka sér þetta og efla sig um leið til áframhaldandi örlætis.

Auðvitað er ódýrt að vera gjafmildur á kostnað annarra. En alvarlegra er þó, að sumir stjórnmálamenn líta á sig sem eins konar landsknegta, er eigi að fá að lifa á landinu og hafa það að herfangi, sem þeir koma höndum yfir.

Framkvæmdastofnunin er hornsteinn hinnar pólitísku spillingar á Íslandi. Þar eru stjórnmál og fjármál hnýtt saman í rembihnút. Þar hafa stjórnmálamenn frjálsar hendur við að hafna venjulegum arðsemissjónarmiðum.

Þetta eru ekki nýjar kenningar. Framkvæmdastofnunin hefur alltaf verið umdeild. Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnan verið andvígur henni í orði, þótt hann hafi notað hana til fulls á borði með því að skipa kommissar og Haukdal.

Þeir, sem Sverrir Hermannsson kallar stuttbuxnadrengi Sjálfstæðisflokksins, komu því til leiðar, að í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er fjallað um, að þingmenn hætti að vera í forsvari fjármálastofnana. Þar er einkum átt við Framkvæmdastofnunina.

Skömmu eftir myndun ríkisstjórnarinnar reis deila milli nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um, hvort þetta atriði og önnur í verkefnaskránni væru bindandi eða marklaust hjal út í loftið.

Geir Hallgrímsson og Friðrik Sophusson sögðu þetta bindandi, en Steingrímur Hermannsson og Tómas Árnason sögðu það “á engan hátt” bindandi. Sverrir Hermannsson sagði fátt, en hló með sjálfum sér að stuttbuxnadrengjunum.

Steingrímur hefur síðan bætt gráu ofan á svart með því að skipa Tómas Árnason þingmann sem formann nefndar, sem á að rannsaka Tómas Árnason kommissar og Framkvæmdastofnun hans! Landsknegtunum er greinilega ekki klígjugjarnt.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins svöruðu í fyrstu þessari köldu vatnsgusu með því að fresta skipun manna í hina furðulegu rannsóknarnefnd Tómasar á hinum sama Tómasi. En Sverrir er nú búinn að láta þá beygja sig.

Stjórnmálamenn úr öllum flokkum nema spillingarflokki Framsóknar hafa oft vakið máls á að leggja bæri niður kommissara og Framkvæmdastofnun. En slíkir stuttbuxnadrengir hafa því miður ekki roð við lífsreyndum landsknegtum.

Jónas Kristjánsson.

DV