Lífsstíll og mataræði

Greinar

Ekkert samband er milli útgjalda þjóða til heilbrigðismála og árangurs þeirra í heilbrigðismálum samkvæmt nýrri rannsókn, sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur látið gera. Góð heilsa og langar ævilíkur virðast fremur ráðast af öðrum atriðum en útgjöldum þjóðanna.

Íslendingar fara meðalveginn í þessum samanburði, eru í 14. sæti í útgjöldum og 15. sæti í frammistöðu í heilbrigðismálum. Við förum líka bil beggja í eigin þátttöku fólks í sjúkrakostnaði, sem er 16% hér, en er 18% í Noregi og 25% að meðaltali í iðnríkjum Vesturlanda.

Staða Bandaríkjamanna er einna verst í þessum samanburði. Þeir verja mestu til heilbrigðismála, 13,7% þjóðarframleiðslunnar, en ná samt ekki nema 37. sæti vegna skaðlegs lífsstíls og mikillar misskiptingar lífsins gæða, sem takmarkar aðgang fólks að kerfinu.

Andstæðan við Bandaríkjamenn eru hinir jafnréttissinnuðu Bretar, sem verja ekki nema 5,8% þjóðarframleiðslunnar til heilbrigðismála og ná þó 18. sæti í samanburðinum. Meðan auðmagn skammtar aðgang vestra, nota Bretar biðlista fyrir háa og lága í sama skyni.

Fyrir þær þjóðir, sem vilja spara í heilbrigðismálum, er betra að læra af Japönum en Bretum. Hinir fyrrnefndu verja að vísu heldur meira til heilbrigðismála, 7,1% þjóðarframleiðslunnar, svipað og við, en ná góðri heilsu og langri ævi, eru í 10. sæti í frammistöðunni.

Munur Japana og flestra annarra er, að þeir leggja mesta áherzlu á forvarnir og lífsstíl, svo að fólk þarf minna á heilbrigðiskerfinu að halda en fólk á Vesturlöndum. Heilbrigðisgeiri Japana stendur undir nafni, en er ekki helber sjúkdómageiri að vestrænum hætti.

Frammistaða Norðurlandaþjóða hlýtur að valda þeim vonbrigðum og leiða til umræðna um markmið og tilgang heilbrigðiskerfisins. Athyglisvert er, að Norðmenn standa sig bezt með 6,5% kostnað og árangur í 11. sæti, og Danir standa sig verst með 8% kostnað og árangur í 34. sæti.

Ekki verður hjá því komizt að gera því skóna að mismunur Norðmanna og Dana felist fyrst og fremst í misjöfnum lífsstíl, þar sem Norðmenn eru miklir útivistarmenn, sem reykja og drekka fremur lítið, en Danir eru innisetumenn, sem reykja og drekka úr hófi fram.

Athyglisverður er árangur Frakka og Ítala, sem tróna í efstu sætum listans yfir árangur í heilbrigðismálum. Þeir verja heldur meira fé til heilbrigðismála en við gerum, 9,8 og 9,3%, en ná þó fremur árangri sínum vegna mataræðis, sem er í góðu samræmi við nútímaþekkingu.

Við getum ekki náð sama árangri og Frakkar og Ítalir af því að við höfum ekki sama aðgang að góðum og hollum mat. Við búum við ríkisvald, sem tekur hagsmuni landbúnaðarins fram yfir heilsuhagsmuni þjóðarinnar og takmarkar innflutning búvöru með ofurtollum.

Hagsmunagæzla ríkisins sprengir upp verð á grænmeti hér á landi og veldur því, að neyzla grænmetis er miklum mun minni en annars staðar á Vesturlöndum. Hagsmunagæzla ríkisins beinir neyzlunni að harðri fitu, mjólk og kjöti, af því að það hentar innlendri framleiðslu.

Greiðasta leið okkar til meiri árangurs í heilbrigðismálum, langrar ævi og góðrar heilsu, felst í að leggja niður ofurtolla á innfluttum matvælum, svo að venjulegt fólk á venjulegum tekjum hafi ráð á mataræði í samræmi við markmið Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar.

Samkvæmt tölum stofnunarinnar skiptir hins vegar litlu, hvort við verjum meira eða minna fé til heilbrigðismála. Lífsstíll og mataræði eru lykilatriðin.

Jónas Kristjánsson

DV