Límið hættir að virka

Greinar

Guggan var keypt 1997 frá Ísafirði til Akureyrar til að ná kvótanum. Nú er því hlutverki lokið og Guggan hefur verið seld úr landi. Fyrst missti ísfirzkt fiskverkafólk vinnuna og nú hafa ísfirzkir sjómenn einnig misst vinnuna. Þetta er saga kvótakerfisins í hnotskurn.

Um leið er þetta angi af stærri sögu, sem hófst vestanhafs og er að breiðast um heiminn. Stjórnendur fyrirtækja einbeita sér að því að fullnægja kröfum hluthafa um ársfjórðungslegan arð og eru sem óðast að leggja niður fyrri áherzlu á stöðu fyrirtækisins í samfélaginu.

Klassíska hagfræðin hefur sagt okkur margt viturlegt. Hún segir okkur, að bezt sé, að hver skari eld að sinni köku innan ramma laga og réttar. Þannig verði meðalávinningur allra sem mestur. Vesturlönd hafa raunar orðið auðug á því að beita klassískri hagfræði.

Tjón ísfirzks fiskverkafólks, ísfirzkra sjómanna og Ísafjarðar sem bæjarfélags verður vegið upp með hagnaði annars fiskverkafólks, annarra sjómanna og annarra bæjarfélaga. Klassíska hagfræðin heimtar beinlínis byggðaröskun til að efla lífsgæði og framfarir.

Áður fyrr var Reykjavík talin endapunktur byggðaröskunarinnar. Þangað mundu peningar og hálaunafólk streyma, þótt leifar útræðis yrðu í nokkrum Dritvíkum og Dagverðareyrum nútímans. En nú fara menn að átta sig á, að Kvosin er ekki endastöð röskunarinnar.

Fyrirtækjum, sem bezt vegnar, opnast leiðir til að setja upp útibú í Stokkhólmi og Los Angeles eða fara beint stytztu leiðina og setja upp aðalstöðvar í Delaware. Eigendur kvóta og hlutafjár setjast að í Eyjahafi eða Karíbahafi, fjarri láréttum Íslandsveðrum.

Klassíska hagfræðin hefur kortlagt margt, en hún leysir ekki margvísleg viðfangsefni utan hagfræðinnar. Með opnun fjölþjóðlegra viðskipta og fjármagnsflutninga hafa myndazt fjölþjóðleg fyrirtæki, sem komast meira eða minna út fyrir lögsögu einstakra ríkja.

Við búum í vestrænum heimi, þar sem samkomulag er um, að ríkisvaldið eitt hafi einkarétt á allri valdbeitingu. Fjölþjóðastofnanir á borð við Evrópusambandið hafa verið að seilast í þetta vald, en eru samt enn mjög veikburða að völdum í samanburði við ríkin.

Fjölþjóðafyrirtækin ganga úr greipum ríkisvaldsins. Þau haga seglum eftir vindi, flytja fjármagn þangað sem það fær að vera í friði og flytja atvinnu þangað sem hlutfall kaups og vinnuframlags er hagstæðast. Þetta setur þjóðir félagslegs markaðsbúskapar í vanda.

Í Bandaríkjunum eru laun forstjóra margfölduð, ef þeir skera niður starfsmannafjöldann um tugi prósenta. Verksmiðjur eru lagðar niður og lifibrauð heilla sveitarfélaga er lagt í rúst af hagræðingarástæðum. Vinnan flytzt til þriðja heimsins, þar sem kaupið er lágt.

Þar sem sveigjanleiki fólks er mestur í heiminum, í sjálfum Bandaríkjunum, hafa menn látið sig hafa þetta og flutt sig um set eftir aðstæðum hverju sinni. En sveigjanleikinn er takmörkunum háður. Menn eiga erfitt með að flytjast í láglaunastöður til Mexíkó.

Bandaríkin eru komin út á haf, þar sem sjókort klassísku hagfræðinnar nýtast ekki lengur. Við erum að leggja út á sama haf. Á þessu ókannaða hafi sinna fyrirtækin ársfjórðungsgróðanum einum og þjóðfélagskerfið byrjar að safna glóðum elds að höfði sér.

Sala Guggunnar er dæmi um, að límið í þjóðfélaginu hættir að virka. Ráðþrota fórnardýr breytinga fá smám saman óbeit á kerfinu og ófriður magnast að innan.

Jónas Kristjánsson

DV