Límið í þjóðfélaginu

Greinar

Í frystihúsi á Vestfjörðum var nýlega farið að hengja upp á töflu tvisvar á dag niðurstöður tölvumælingar á mætingu starfskvenna, vinnsluhraða þeirra, fjölda galla, og lengd kaffitíma þeirra. Í töflufréttum þessum var ekki fjallað á hliðstæðan hátt um karlana í frystihúsinu.

Ef vinnubrögð af þessu tagi breiðast út í fiskvinnslu, verður ekki hægt að búast við, að margar konur fýsi að starfa að henni. Það verður helzt hægt í afskekktum sjávarplássum, þar sem ekki er völ á annarri vinnu meðan fólk er að leita tækifæra til að flýja suður.

Hugsunarhátturinn að baki vinnubragðanna breiðist víðar út en í Bolungarvík. Í fræðum atvinnurekstrar hefur komið til sögunnar ný hugmyndafræði, sem lítur á skjóttekinn arð sem eina markmiðið. Hún telur starfsfólk vera eins konar hilluvöru, er megi nýta og kasta.

Af þessum toga eru tilraunir til að ráða starfsfólk sem verktaka, svo og uppsagnir starfsfólks til að ráða það að nýju á lakari kjörum. Af sama toga eru hreinsanir, sem taldar eru gulls ígildi, því að þær spari í rekstri og rækti ótta starfsfólks um, að vinnan sé ekki örugg.

Kennisetningar þessar koma frá Bandaríkjunum, þar sem gengið hefur bylgja arðhyggju og mannfyrirlitningar. Litið er á starfsfólk, sem hálfgerða þræla, er píska skuli sem mest og kasta síðan burt að nokkrum tíma liðnum. Sagt er, að þetta auki velmegun í þjóðfélaginu.

Staðreyndin er hins vegar sú, að mikil hagþróun í Bandaríkjunum hefur eingöngu gert hina ríku ríkari, en skilið hina fátæku eftir í skítnum. Þeir hafa staðið í stað í tvo áratugi. Munurinn á ríkum og fátækum þar vestra er aftur orðinn eins mikill og hann var árið 1920.

Í vaxandi mæli býr efsti fimmtungur bandarísku þjóðarinnar í afgirtum og vöktuðum hverfum, þar sem óboðnum er ekki hleypt inn. Innan hverfisins er fagurt umhverfi og fyrirtaks þjónusta á öllum sviðum. Utan veggjar er hins vegar allt í sóðaskap og niðurníðslu.

Almannaskólar drabbast niður og einkaskólar blómstra. Almannasamgöngur drabbast niður og einkasamgöngur blómstra. Almannasorphreinsun drabbast niður og einkasorphreinsun blómstrar. Almannasjúkrahús drabbast niður og einkasjúkrahús blómstra.

Þessi skipting í yfirstétt og undirstétt er ekki eins langt frá ströndum Íslands og við höfum hingað til haldið. Við sjáum hana í ýmsum myndum, svo sem í frystihúsi í Bolungarvík og við sjáum hana í hugmyndum um, að fólk geti keypt sig upp eftir biðlistum sjúkrahúsa.

Stéttaskiptingin í Bandaríkjunum er á hraðri leið í átt til þess, sem hún er í þriðja heiminum. Þótt af þessu skapist mikill skammtímaarður, er hann ekki ókeypis frekar en hádegisverður Hannesar. Hann kostar rotnun samfélagsins að innan. Límið í þjóðfélaginu gefur sig.

Lýðræðislegt nútímaþjóðfélag stenzt ekki til lengdar, ef límið gefur sig. Þá fara hóparnir hver í sína átt. Ríka fólkið flýr inn í afgirt hverfi og fátæklingarnir flýja inn í glæpi og fíkniefni. Ef þetta ferli verður ekki stöðvað, getur það ekki endað öðru vísi en með byltingu.

Skammtímaarður dugir ekki sem markmið. Mannleg sjónarmið eru mikilvægari. Þau gefa betri útkomu, þegar til langs tíma er litið. Vesturlönd voru lengi á réttri leið, en misstu velferðarkostnaðinn úr skorðum og fóru þá að gæla við öfgana á hinum kantinum.

Aldrei má ganga svo langt í arðhyggju, að það leiði til, að þjóðfélag fari að skiptast í afmarkaðar stéttir á nýjan leik. Við skulum víkja af þeirri braut í tæka tíð.

Jónas Kristjánsson

DV