Myntbreytingin hefur reynzt merkilega lipur og vandræðalaus. Meirihluti hinnar gömlu myntar féll úr umferð strax á fyrsta degi. Og nú er skilatalan komin upp fyrir 80%. Þetta er mun betri árangur en náðst hefur í öðrum löndum.
Tæknilega séð voru skiptin vel skipulögð. Mikil áherzla var lögð á upplýsingastrauminn. Þar kom sér vel, að Ísland er lítið og þéttriðið þjóðfélag með öflugt kerfi samgangna í upplýsingum. Nærri allir voru með á nótunum.
Nú þegar eru margir farnir að hugsa í nýjum krónum eins og þeir hafi aldrei notað neitt annað. Aðrir eru ekki eins snöggir, en eru smám saman að átta sig. Allt er þetta mun fljótvirkara en búast hefði mátt við af erlendri reynslu.
Þetta er athyglisvert dæmi um keðju framleiðslu, dreifingar og sölu. Vandað upplýsingakerfi kemst til skila og nær snöggum árangri. Síðast en ekki sízt bendir það til, að íslenzkt þjóðfélag sé bara furðu virkt, þrátt fyrir allt.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið