Ofnsteikt kálfakinn, vafin í mörgirni, borin fram með bragðmildum linsubaunum grænum var vel heppnað dæmi, sem sýnir, að Listasafnið á Hótel Holti ber í matargerðarlist af öðrum veitingastofum landsins. Þar fara saman frumlegir réttir og nærfærin matreiðsla, sem gerir jafnvel baunir að ljúfmeti.
Annað dæmi af þessu skemmtilega tagi var guðlaxatartar og karamellu-piparsteikt risahörpuskel undurmeyr, borin fram með eggjarauðu og sítrónublandaðri olífuolíu. Efnisval og efnistök voru einstæð. Ég fæ ekki svona mat heima hjá mér.
Ég minnist líka indæls kola- og hörpuskeljaragús með sveppum og graslauki, borins fram með skalottulauks-hvítvínssoði. Einnig er minnisstæður hrár lax með blöndu af eggjahvítu og kapers, höm og steinselju. Helzt vildi ég borða hvern forréttinn á fætur öðrum á Holti.
Fiskréttir voru óaðfinnanlegir. Þar á meðal var hæfilega lítið steiktur steinbítur með hvítlaukskrydduðu blómkáli, hæfilega lítið elduðu, borinn fram á blóðbergsblandaðri paprikusósu. Einnig hæfilega lítið kryddsteiktur karfi með osthrísgrjónum, spínati og rauðrófusósu.
Osthrísgrjónin með karfanum voru á ítalska vísu, steikt fyrst og síðan soðin í litlu vatni og loks blönduð Mascarpone bræðsluosti. Þau eru eins og linsubaunirnar fyrirtaks dæmi um, hvernig breyta má hversdagslegasta hráefni í veizlukost, sem ber af öðru hér á landi.
Ekki var gefið eftir í kjötréttunum. Á tungunni rann hæfilega lítið steikt aliandarbringa með gljáðum hreðkum, sætum hvítlauk í heilum rifjum og portvínsblandaðri berjasósu. Einnig ofnsteikt og bragðsterkt kálfainnralæri í eigin safa, með stappaðri sætukartöflu, stöppuðum hvítbaunum, fögrum og góðum spergli og grænum olífum
Með kálfakjötinu var bragðmild og fín kálfabrispylsa með þungum negultóni í bragði, enn eitt dæmið um, að Listasafnið á Holti hefur faglegan og listrænan styrk til að fara eigin leiðir og sigrast á óvenjulegum verkefnum.
Eftirréttir voru fyrst og fremst léttir og skemmtilegir, hressandi mangófroða; feneysk ostaterta tiramisu með kirsuberjum, brómberjum og karamellusósu; og gullappelsínu-sulta með volgu súkkulaði, makkarónum og sósu úr mangó og ástríðuávöxtum.
Holtið felur ekki bara í sér óaðfinnanlegan mat. Þjónustan er einnig metnaðarfull, kunnáttusöm í smáatriðum og hefur allt á hreinu um matreiðsluaðferðir og víntegundir. Þetta er allt saman hluti af áratuga hefð, sem heitir Holt og er betri um þessar mundir en nokkru sinni fyrr.
Yfirstærðar-málverk, massífur góðviður og steindir gluggar eru hæfilega notalegur og friðsæll umbúnaður um þríréttaða veizlu með kaffi fyrir 4.400 krónur á kvöldin og aðeins 1.900 krónur í hádeginu; veizlu, sem hátt er yfir aðra staði hafin í sama verðflokki.
Jónas Kristjánsson
DV