Litháen án lausnargjalds

Greinar

Efnahagslegar þvinganir í skjóli hermanna, sem eru gráir fyrir járnum, kunna að ná tilætluðum árangri. Í Litháen eru stjórnvöld nærri daglega að bæta við atriðum, sem þau geta fallizt á að semja um við stjórn einræðisherrans Gorbatsjov í Kreml. En hann anzar engu enn.

Samningar, sem gerðir kunna að vera í kjölfar ofbeldis af því tagi, sem nú á sér stað í Litháen, hafa ekkert gildi í vestrænum skilningi. Þeir staðfesta aðeins, að Sovétríkin eru ofbeldisríki, sem kúgar umhverfi sitt eins mikið og það treystir sér til hverju sinni.

Engu máli skiptir, þótt formlega hafi ofbeldið bara lýst sér í að lemja nokkra prentara og brjóta nokkrar hurðir á sjúkrahúsum. Ógnun herafla nægir gegn þjóð, sem hefur engan eigin her. Við slíkar aðstæður er samningskrafa í raun krafa um uppgjöf með skilyrðum.

Gorbatsjov og hirðmenn hans í Kreml hafa lýst sjónarmiðum, sem fela í sér, að þeir hyggjast nota samningana til að ræna og rupla Litháa. Þeir gera tilkall til verðmæta, sem orðið hafa til í Litháen, síðan það land var þvingað inn í sovézka heimsveldið fyrir hálfri öld.

Staðreyndin er auðvitað sú, að Litháar sömdu ekki neitt um inngöngu í Svoétríkin. Þeir voru einfaldlega þvingaðir til ánauðar. Það hafa stjórnvöld í Sovétríkjunum raunar viðurkennt. Þau verðmæti, sem orðið hafa til í landinu í ánauðinni, eru eign heimamanna.

Sovézka stjórnkerfið ber alla ábyrgð á innlimun Litháens og getur ekki gert neitt siðferðilegt tilkall til opinberra stofnana, flokksstofnana eða fyrirtækja, sem orðið hafa til í landinu. Jafngild verðmæti hefðu orðið til og raunar margfalt meiri, ef Litháen hefði verið frjálst.

Það, sem Gorbatsjov segir, er í stuttu máli þetta: “Hér er ég með mína hermenn. Þið skulið, áður en þið verðið svelt og barin, skrifa undir, að þið kaupið ykkur á fimm árum frelsi úr ánauð. Upphæðin verður sú, sem ég ákveð og hún verður mjög há, enda er ég mjög blankur núna.”

Gorbatsjov er ekki neinn hryðjuverkamaður á borð við Stalín. En hann er enginn stjórnarleiðtogi í vestrænum skilningi. Hann er austrænn einræðisherra, sem notar snakk um lýðræði, ef það hentar honum, og gefur þjóðum frelsi, ef hann telur sig ekki geta haldið þeim.

Efnahagur Sovétríkjanna er í rúst. Of dýrt er orðið fyrir þau að halda ófúsum þjóðum Austur-Evrópu í ánauð. Þess vegna gaf Gorbatsjov eftir Pólland, Ungverjaland, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkaland. En hann telur sig geta fengið greitt fyrir Eystrasaltsríkin.

Gorbatsjov telur sig vita, að vestrænir stjórnmálamenn, allt frá Bush Bandaríkjaforseta yfir í Pál á Höllustöðum, vilji ekki grafa undan sér. Honum hefur tekizt að byggja upp á Vesturlöndum ranga ímynd af sér sem hagstæðasta haldreipi Vesturlanda í Sovétríkjunum.

Ráðamenn á Vesturlöndum ímynda sér, að Gorbatsjov sé sá, sem geti opnað hagkerfi Sovétríkjanna og komið á markaðsbúskap, eins og verið er að gera í Póllandi og víðar í Austur-Evrópu. Þeir munu verða fyrir miklum vonbrigðum með þennan skjólstæðing sinn.

Skynsamlegt væri af ráðamönnum Vesturlanda að láta ekki blindast af Gorbatsjov. Þótt hann sé enginn Stalín, er hann enginn Ludwig Erhard. Hann er ráðinn af sovézku leyniþjónustunni til að bjarga því, sem bjargað verður ­ með því að svelta fólk, en drepa það ekki.

Ef Vesturlönd þora að beita virkum efnahags- og stjórnmálaaðgerðum gegn ofbeldi Gorbatsjovs í Litháen, neyðist hann til að láta landið af hendi án lausnargjalds.

Jónas Kristjánsson

DV