Lítið fæst fyrir orkuna

Greinar

Ekki var seinna vænna, að farið var að semja um verð á raforku til fyrirhugaðs álvers Atlantals á Íslandi. Nógu mikið er búið að tala um væntanlegt póstfang álversins, svo að tími er kominn til að fá botn í það, sem meira máli skiptir, áhrif þess á þjóðarbúið.

Orkuverð til álvers Atlantals verður mjög lágt, einkum í upphafi. Verðið mun tengjast sveiflum á verði áls, svo að Landsvirkjun getur hæglega lent í þeim vanda, að greiðslur vaxta og afborgana af lánum vegna orkuvera í tengslum við álverið verði hærri en tekjurnar.

Meira en hugsanlegt er, að hækka verði verð á rafmagni til almennings í landinu til að gera Landsvirkjun kleift að standa við skuldbindingar sínar út af orkuframkvæmdum vegna álversins. Svo lágt er gjaldið frá Atlantal, að áhættusvigrúmið er lítið sem ekki neitt.

Allt getur þó farið vel að lokum, þótt það taki lengri tíma en vonað hafði verið og eðlilegt má teljast. Einhvern tíma á næstu öld má reikna með, að orkuverin afskrifist og geti farið að mala eigendum sínum gull. En margir áratugir geta liðið, áður en það gerist.

Við erum að ganga frá samningum um að selja orku frá ódýrustu orkuverum, sem hægt er að reisa hér á landi. Ef við semjum við Atlantal um, að það greiði kostnaðarverð eða tæplega það fyrir þessa orku, getum við ekki selt orkuna neinum öðrum aðila um leið.

Ef við semjum við Atlantal, getum við ekki selt okkar hagkvæmustu orku um sæstreng til Bretlandseyja. Samt er hugsanlegt, að það sé miklu hagkvæmari kostur, sem gefi nokkrum sinnum hærra orkuverð en nokkurt álver getur greitt, 100 mills í staðinn fyrir 20 mills.

Tæknin er komin á það stig, að hægt er að leggja sæstrenginn, ef ákveðið verður að gera það. Það verður dýrt, sennilega jafndýrt og að reisa orkuverin sjálf, en getur samt orðið ævintýralegt gróðafyrirtæki upp á tugi milljarða á ári hverju, vegna hins háa orkuverðs.

Orkuvandi Bretlandseyja og meginlands Evrópu mun fara vaxandi. Það stafar annars vegar af, að olía mun hækka mikið í verði, þegar til langs tíma er litið. Og hins vegar stafar það af, að kjarnorkuver eru hættulegri en talið var og mun óvinsælli en þau hafa verið.

Af þessum ástæðum má búast við, að verð á orku um sæstreng frá Íslandi geti haldizt hátt og jafnvel hækkað töluvert eftir því sem tímar líða fram. Hins vegar er afar lítið svigrúm í verði á orku til nýs álvers á Íslandi. Sæstrengur gæti verið álitlegri en álver.

Á þessari röksemdafærslu er sá hængur, að samningur um álver er langt kominn, en ekki er farið enn að ræða neitt að gagni um sæstreng. Því er unnt að segja, að betra sé að hafa lélegan samning í húsi en góðan úti í skógi. Þannig tala menn, ef þeim liggur lífið á.

Og okkur liggur þessi lifandis ósköp á. Landsvirkjun lá svo mikið á, að hún sendi í fyrrahaust vinnuskúra til Búrfells til að vera búin að því fyrir vorið. Iðnaðarráðherra liggur mikið á, af því að hann vill hafa athafnasveiflu í þjóðfélaginu rétt fyrir næstu þingkosningar.

Svo mikið liggur okkur á, að sveitarfélög í þremur landshornum eru komin í hörkusamkeppni um, hvert þeirra eigi að fá álver í hlaðvarpann. Ákaft er slegizt um, hver eigi að fá þensluna í sinn garð, en ekki minnzt einu orði á, hvort álverið sé þjóðinni hagkvæmt.

Þegar menn ákveða fyrirfram að fá nammið sitt, hvað sem það kostar, eru ekki nokkrar líkur á, að við höfum frambærilega samningaðstöðu um það, sem máli skiptir.

Jónas Kristjánsson

DV