“Skín við sólu Skagafjörður”, var sungið á mannamótum, þegar ég var þar í sveit fyrir sextíu árum. Eyjapeyjar eiga vafalaust eitthvað svipað, líklega eftir Ása í Bæ. Þegar ég mætti í þorrablót sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi fyrir fjörutíu árum, urðum við að láta okkur nægja: “Seltjarnarnesið er fagurt og frítt”. Alltaf er það svo heima í héraði, að menn eru þar beztir og klárastir og náttúran fegurst og stórfenglegust. Á næsta þrepi fyrir ofan eru þjóðsöngvar, sem mæra yfirburði kynsins og hvetja drengi til að fara í stríð. Og alltaf eru til forsetar og pólitíkusar, sem magna þessa rembu.