Í fyrradag var skýrt frá litlu og lélegu verki nefndar, sem gerði ekki það, sem henni var sagt að gera, notaði úreltar upplýsingar og sundurliðaði ekki þann þátt niðurstaðanna, sem reyndist áhugaverðastur. Þetta var nefnd, sem átti að leggja til lækkun framfærslukostnaðar.
Þessa nefnd skipaði forsætisráðherra í febrúar í fyrra með aðild Þjóðhagsstofnunar og heildarsamtaka vinnumarkaðarins. Í skipunarbréfi nefndarinnar var farið fram á tillögur um leiðir til að lækka framfærslukostnað heimilanna, en nefndin varð ekki við þeirri ósk.
Nefndin notaði ekki einu sinni nýjustu neyzlukönnun Hagstofunnar, frá 1995, heldur gamla könnun frá 1990. Það dregur auðvitað úr gildi vinnunnar fyrir líðandi stund, að upplýsingar um neyzlumagn eru gamlar. Þær eru til dæmis eldri en ofurtollar innfluttrar búvöru.
Gagnlegur er samanburður nefndarinnar á verðlagi á Íslandi og í löndum Evrópusambandsins árið 1994. Hann sýnir, að verðlag einkaneyzlunnar er um 13% hærra hér á landi en í Evrópu. Sumt er ódýrara hér, svo sem húshitun, en annað er dýrara, svo sem matur og drykkur.
Gagnlegri hefði verið samanburður við Bandaríkin, þar sem verðlagi á matvælum er ekki haldið uppi eins og í löndum Evrópusambandsins. Þá hefðum við einnig fengið samanburð við þá þjóð, sem býr við einna mest frelsi í framleiðslu og sölu á vörum og þjónustu.
Einn helzti gallinn við vinnu nefndarinnar er þó, að hún sundurliðar ekki þann þátt, sem óhagstæðastur er Íslandi og gefur því mest tilefni til aðgerða til lækkunar. Þetta er liðurinn: Matur, drykkur, tóbak, sem reyndist vera 48% dýrari hér á landi en meðaltalið í Evrópu.
Þetta er safnliður ólíkra þátta, sem hljóta afar misjafna meðferð stjórnvalda. Sumt er innfluttur matur, sem ekki er háður tollmúrum. Annað er innfluttur matur, sem þarf að sæta háum tollum. Og enn annað er innlend og ríkisvernduð framleiðsla landbúnaðarafurða.
Með því að slengja öllu þessu saman í einn pakka, dylst fyrir almenningi sú staðreynd, að sumt af mat er á svipuðu verði hér og í Evrópu, en annað er miklu dýrara og jafnvel margfalt dýrara. Talan 48% segir ekki alla söguna um þann mat, sem lýtur afskiptum ríkisins.
Ef þetta hefði verið sundurliðað, hefði niðurstaðan sýnt, að verðlag væri svipað hér á landi og í Evrópu, nema á þeim vörum, sem njóta sérstakrar verndar eða þurfa að sæta sérstökum verndartollum. Þá hefði nefndin komizt að kjarna málsins, sem hún ekki þorði.
Ekki þarf raunar nefnd til að segja fólki, að samkeppni ræður verði. Þar sem einhvers konar vernd er í spilinu, hvort sem það er sjálfvirk vernd á borð við fjarlægðarvernd eða tungumálavernd eða meðvituð vernd á borð við aðgerðir ríkisins, verður vara dýrari.
Nefndin hefði getað fundið þetta út, ef hún hefði kært sig um eða þorað. En þá hefði hún líka neyðzt til að fara eftir tilmælum skipunarbréfsins og ekki átt annars kost en að leggja til minnkun eða afnám verndarstefnu ríkisins, eins og hún kemur fram í höftum og tollum.
Þegar forsætisráðherra skipar nefnd, sem beinlínis er falið að gera tillögur um lækkun framfærslukostnaðar, hljóta það að vera mikil vonbrigði fyrir hann eins og marga aðra, að nefndin skyldi hlaupa frá verkinu af ótta við að trufla valdamikla aðila í þjóðfélaginu.
Hafa má til marks um eymd Alþýðusambandsins, að fulltrúi þess skuli eiga aðild að nefnd, sem hefur frumkvæði í að drepa lækkun vöruverðs á dreif.
Jónas Kristjánsson
DV