Ekki er við miklum árangri að búast á toppfundi heimsveldanna, sem nú stendur í Genf. Þó má segja, að nokkur árangur felist í því einu, að forseti Bandaríkjanna og framkvæmdastjóri sovézka kommúnistaflokksins skuli yfirleitt hittast, eftir langt hlé á slíkum fundum.
Heimsveldin hafa hvort í sínu lagi lagt fram tillögur um helmings fækkun kjarnaodda og að hvor aðili um sig megi hafa 6000 slíka. Þessi samræming er til bóta, þótt smáa letrið sé mjög misjafnt hjá málsaðilum og einnig þótt 6000 oddar séu töluvert umfram öryggi.
Verst við fundi af þessu tagi er óskhyggjan, sem þeir vekja í brjóstum Vesturlandabúa. Fólk er orðið langþreytt á spennunni milli heimsveldanna og hefur vaxandi áhyggjur af endalokum mannkyns. Margir telja tækniþróunina hafa breytt kjarnorkuöryggi í kjarnorkuóöryggi.
Ekki voru traustvekjandi rassaköst bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli, þegar Shevardnadze, utanríkisráðherra Sovétríkjanna, var hér í opinberri heimsókn á dögunum. Menn spyrja eðlilega, hvort agalausir menn geti ekki hreinlega komið af stað stríði fyrir mistök.
Þegar svo er komið, að einungis sex mínútur þarf til að koma kjarnaoddi í mark, er ekki mikið svigrúm til að átta sig á mistökum. Æðikollar á Keflavíkurvelli gætu hrundið af stað austrænu viðvörunarkerfi, sem byggir á sjálfvirkni ótrausts tölvubúnaðar.
Við slíkar aðstæður er eðlilegt, að bandarískar ráðagerðir um geimskjöld njóti töluverðs fylgis þar í landi og raunar víðar. Fólki er huggun í tilhugsuninni um eins konar regnhlíf, sem geti hindrað hvern einasta kjarnaodd óvinar í að komast í mark.
Ekki er ástæða fyrir Reagan Bandaríkjaforseta að verða við kröfum um að hætta við rannsóknir, sem miða að geimskildi í framtíðinni. Hastarleg viðbrögð í Sovétríkjunum benda einmitt til, að geimskjöldur geti verið góður kostur, ef hann er þá yfirleitt framkvæmanlegur.
Óskhyggjan á Vesturlöndum kemur meðal annars fram í trú sumra á, að hinn nýi framkvæmdastjóri sovézka kommúnistaflokksins sé mannlegri en fyrirrennarar hans. Það er hreinn og klár misskilningur. Gorbatsjov hefur stáltennur á bak við brosið, svo sem Gromyko hefur bent á.
Gorbatsjov hefur sýnt mikinn áhuga á að knýja þræla sína til meiri afkasta og gefa þeim minna færi á að drekkja sorgum sínum í brennivíni. Hann er hlynntur járnaga, mun harðskeyttari en Tsjernenko og Brésnjev. Vesturlandabúar geta ekki búist við neinu góðu frá hans hendi.
Ekki bætir úr skák, að Gorbatsjov hefur, eins og utanríkisráðherra hans, reynzt vera illa að sér í alþjóðamálum. Hann er háður áróðurskenndum fréttaflutningi sinna manna og telur sér til dæmis trú um, að mannréttindi séu mjög svo fótum troðin á Vesturlöndum.
Þegar Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var í Kreml á dögunum, kom á óvart, hversu mikið slagsmálastuð var á Gorbatsjov. Hann flutti áróðursræður út í bláinn og var með framítektir, sem til skamms tíma hafa ekki þótt fínar í hinum diplómatíska heimi.
Vísast verða Vesturlandabúar að sætta sig við, að toppfundurinn í Genf breyti ekki miklu. Fólk verður áfram að búa við öryggisleysi og kvíða. Sovétríkin stefna enn að heimsyfirráðum og munu áfram baka vestrinu sálrænan og peningalegan herkostnað af verndun frelsis og mannréttinda.
Jónas Kristjánsson.
DV