Lítils nýt og gráðug

Greinar

Fæstir bankastjórar vinna fyrir kaupinu sínu. Þeir hafa rekið bankana illa. Þeir hafa árum saman orðið að afskrifa milljarða króna á ári hverju vegna heimskulegra og spilltra útlána. Þess vegna neyðast þeir til að halda uppi óeðlilega miklum vaxtamun milli inn- og útlána.

Fæstir bankastjórar hafa átt skilið launahækkanir upp á 110.000-165.000 krónur á mánuði. Þeir hafa ekki unnið fyrir hækkuninni, ekki frekar en ráðherrar og æðstu embættismenn og dómarar hafa unnið fyrir þeim hækkunum, sem þeir hafa skammtað sér að undanförnu.

Bankastjórar skipa valdastétt opinbera geirans með ráðherrum, helztu dómurum og æðstu embættismönnum. Á samdráttarskeiði undanfarinna ára hefur þessi yfirstétt tekið sér kjarabætur, sem eru úr takt við landsframleiðsluna og rekstrarstöðu launagreiðandans.

Langt er síðan fréttist af ferðahvetjandi launakerfi yfirstéttarinnar, sem felst í, að tekjur hennar umfram útgjöld hækka því meira, sem hún ferðast meira. Langt er síðan kom í ljós, að bankastjórar fá hundruð þúsunda umfram laun fyrir að stjórna einstökum deildum.

Upplýsingar um sjálftekt yfirstéttarinnar á samdráttartímum hafa ekki raskað ró hennar. Í engu tilviki hafa uppljóstranir leitt til, að farið hafi verið inn á siðlegri brautir við verðlagningu á meintri vinnu yfirstéttarinnar. Hún hefur látið gagnrýni sem vind um eyru þjóta.

Yfirstéttin lítur á sig sem sérstaka þjóð í landinu, svipað og lénsherrar fyrri alda. Hún lítur á tekjur sínar sem próventu eða herfang fyrir að vera til, en ekki fyrir meira eða minna unnin störf. Hún telur, að þessar tekjur megi hækka ört, þótt tekjur annarra standi í stað.

Þetta hugarfar yfirstéttarinnar á þátt í aukinni stéttaskiptingu á undanförnum árum. Hugarfarið hefur étið þjóðfélagið að innan. Meðal annars gerir það ráðamönnum landsins ókleift að spekja láglaunafólk með viðvörunum um verðbólgu og efnahagslegar kollsteypur.

Láglaunafólk með 70.000 króna mánaðarlaun getur ekki tekið neitt mark á föðurlegum áminningum yfirstéttarinnar um, að kröfur þess um bætt lífskjör leiði til verðbólgu og annarra vandræða í þjóðarbúskapnum. Láglaunafólkið veit, hvernig yfirstéttin hefur hagað sér.

Tekjur yfirstéttarinnar skipta í sjálfu sér litlu í heildardæmi þjóðarbúskaparins. Þar á ofan eiga meint störf hennar að vera svo mikilvæg, að þau gætu vel staðið undir hinum háu launum, ef þjóðin hefði tilskilið gagn af störfunum. En svo er því miður í fæstum tilvikum.

Ef hin lélega yfirstétt hefði hamið græðgi sína á undanförnum árum, gæti hún nú talað landsföðurlega yfir umboðsmönnum láglaunahópanna um nauðsyn ábyrgðartilfinningar og þjóðarsáttar. Eftir sjálftekt yfirstéttarinnar er holur hljómur í prédikunum af því tagi.

Enda kemur í ljós í umræðunni um tekjuaukningu bankastjóra á síðustu árum, að þeir, sem ábyrgð bera á málinu, svo sem bankaráð, viðskiptaráðuneyti og löggjafinn sjálfur, ætla sér ekki að gera neitt til að koma þessum launum niður í siðferðilega verjanlegar upphæðir.

Þótt fólk hafi almennt ekki áhuga á verkföllum, er það samt svo langþreytt á ástandinu, að hljómgrunnur er fyrir hernaðarlega mikilvægum, en tiltölulega fámennum verkföllum, þar sem þátttakendur eru á sameiginlegum styrkjum úr verkfallssjóðum margra stéttarfélaga.

Ef allt fer úr böndum og lítils nýt yfirstétt getur ekki náð þjóðarsátt um verðbólgulaust land á næstu árum, getur hún engu öðru um kennt en eigin græðgi.

Jónas Kristjánsson

DV