Litla-Ítalía er kjörinn staður til að fá sér ódýrt og samt fjölbreytt að borða í hádeginu. Hádegisverðarhlaðborðið kostar 580 krónur fyrir utan kaffi. Innifalin er súpa, ávaxtasafi, kryddlegið grænmeti af ýmsu tagi, pöstur, sjávarréttir og baunaréttir, ostar og ávextir.
Flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessu borði og breytingafíklar geta fundið nýstárlega rétti á borð við anískrddaðar kartöflur. Meiri natni er lögð í þetta en salatborðin, sem víða tíðkast í hádeginu.
Að öðru leyti er Litla-Ítalía eins konar útibú frá Ítalíu, sem er einn af betri matstöðum borgarinnar. Nýi staðurinn nær ekki gæðum móðurskipsins. Pítsurnar voru að vísu mjúkar og safaríkar, en pösturnar voru slakar.
Litla-Ítalía felur sig í kjallara gamals húss við Laugaveg 73, í húsinu neðan við stóra Landsbankahúsið. Gengið er um tröppur niður í lítið port og síðan þvert til vinstri. Hér hafa risið og hnigið nokkur veitingahús og ekki skilið neitt eftir í endurminningunni.
Hér er timburloft og trégólf. Þetta er friðsæll og rómantískur staður, einkum að kvöldlagi, er fólk skrafar lágt í þröngum básum. Óperutónlist er of hátt stillt.
Á skilrúmum standa blóm og fullar vínflöskur, en í lofti hanga tómar chianti-flöskur bastvafðar. Á veggjum er ýmislegt dót, svo sem hljóðfæri og dúkkur, svo og flöskumiðar af Mouton Rotschild, sem raunar fæst ekki.
Þjónusta er upp og ofan. Í eitt skiptið var hún ítölsk og fullkomin, mundi meira að segja, hvað hver hafði pantað. Í annað skipti var hún íslenzk og meira eða minna utangátta, þótt vingjarnleg væri. Fyrsta verk þjóns á vaktinni á að vera að kynna sér, hver sé réttur dagsins, svo að unnt sé að svara einföldustu spurningum gesta.
Matseðillinn er stuttur og spennulaus. Þungavigtin er í pöstum og pítsum. Verðið er of hátt á öðru en hádegishlaðborðinu, svona mitt á milli Asks og Holts. Pöstur og pítsur kosta einar sér um 980 krónur og annað er dýrara.
Nokkrar tegundir eru af ítölsku víni, einkum rauðu. Þarna fæst meðal annars Pinot Grigio og beizkur Bardolino frá Langbarðalandi, ýmis Chianti-vín frá Etrúskalandi og hlutlaust, en ferskt Frascati frá Latverjalandi. Ráðlegt er að halla sér að hinu gamalkunna Chianti.
Súpur dagsins eru yfirleitt fremur góðar hveitisúpur rjómaðar, svo sem tómatsúpa og seljustönglasúpa. Brauð var gott, en smjör hart.
Sjávarréttasalat var gott. Þar var ljúf úthafsrækja og meyr hörpufiskur, agnarlitlir kolkrabbar, nokkuð seigir, örugglega úr dós. Laxafrauð var bragðgott, borið fram í sneiðum með ristuðu brauði.
Pöstur reyndust misjafnar. Ofnbakaðar pastaræmur með örsmáum og aflöngum kjötbollum voru brenndar fastar við diskinn. Pastahringir með skinku, sveppum og hvítlauk voru betri. Ítalskar kexstengur fylgdu.
Steinbítur dagsins var mjög góður, afar léttsteiktur, borinn fram undir miklu þaki grænmetis í tómatsósu. Þetta var bezti rétturinn, bar vott um tilþrif í eldhúsi.
Á ferðum mínum um Róm kom ég aldrei á svo ódýran matstað, að ekki væru þar hvítar tauþurrkur. Í Litlu-Ítalíu eru pappírsþurrkur aftur á móti í hávegum hafðar.
Jónas Kristjánsson
DV