Litli maðurinn gegn skrímslinu

Punktar

Notaleg grein um baráttu litla mannsins gegn skrímslinu birtist í International Herald Tribune í dag. Þar segir Ariana Eunjung Cha frá baráttu Vazquez de Miguel, menntaráðherrans í Extramadura, afskekktasta héraðs Spánar, gegn einokunarveldi Microsoft. Hann lét verja 180 þúsund evrum til að setja saman 150.000 eintök af geisladiski með ókeypis forritum, sem nota ókeypis stýrikerfið Linux í stað Windows. Þessi diskur er kominn á leið um heiminn. Efnahagsráðuneyti Evrópusambandsins er farið að mæla með notkun Linux. Kína, Indland og mörg önnur þriðja heims ríki eru komin á sömu slóð. Í 24 löndum eru stjórnvöld þegar farin að mæla með notkun Linux. Þetta er hugljúf saga, sem aldrei hefði getað gerzt hjá hinni þrælslunduðu þjóð norður í höfum, þar sem Björn Bjarnason, þáverandi menntaráðherra, lét borga Microsoft stórfé fyrir að láta svo lítið að íslenzka Windows, þegar Makkinn fékkst þýddur ókeypis.