Litlu sætu löggurnar

Greinar

Lögreglumenn í Reykjavík hafa kært fegurðardrottningu heimsins fyrir að vera vonda við þá. Þeir kæra nafngreinda konu fyrir að misþyrma sér á lögreglustöðinni í Reykjavík. Þennan brandara segja þeir í skjóli nafnleysis sem hverjir aðrir embættismenn upp úr Kafka.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram, að hér er ekki hægt að segja allan sannleikann um lögreglumenn, af því að félag þeirra hleypur umsvifalaust á bak við úrelt lög um virðingu embættismanna, sem eru frá þeim tíma, er embættismenn voru merkari en annað fólk.

Oft hefur komið fram, að sumir lögreglumenn eiga í erfiðleikum með að umgangast fólk. Kringumstæður, sem reynast flestum þeirra eðlilegur hluti starfsins, verða að versta klúðri hjá sumum þeirra. Tilgangslaust er að tala um þetta, því að þessir menn eru verndaðir.

Lögreglumenn vernda hiklaust hver annan og þeir eru verndaðir af yfirboðurum sínum. Í stað þess að nota uppákomur til að laga ástandið eru þær notaðar til að þjappa mönnum saman gegn áreiti utan úr bæ. Þannig venjast menn því að þurfa ekki að kunna mannasiði.

Það eru auðvitað engir mannasiðir að láta menn úti í bæ siga sér á blásaklaust fólk út af máli af því tagi, sem lögreglan nennir annars tæpast að sinna. Fegurðardrottningin var í fullum siðferðilegum rétti til að reiðast. Lögreglumenn höfðu gefið ærið tilefni til þess.

Það eru auðvitað engir mannasiðir að lenda í slíkum átökum við fallegar konur, að þær þurfi síðan að fara á Slysadeild. Svona gera menn ekki, var nýlega sagt. Þau fleygu orð hæfa vel nýjustu uppákomunni í samskiptaörðugleikum lögreglunnar við borgara landsins.

Og fara síðan að klaga konuna fyrir að hafa verið vonda við litlu sætu löggurnar, er bara lélegur brandari. Svona hlutum halda menn ekki fram. Erlendis reyna lögreglustjórar að stöðva slík frumhlaup undirmanna, áður en þau leita útrásar sem formleg kæra á pappír.

Því miður er ekki von á góðu við meðferð Rannsóknarlögreglu ríkisins á málinu. Hún mun vernda starfsbræður sína. Þeir munu svo siga lögmanni stéttarfélagsins á fegurðardrottninguna og fá hana dæmda fyrir meiðyrði við embættismann. Slíkur er hetjuskapurinn á þeim bæ.

Rannsóknarlögregla ríkisins er raunar aumasta stofnun landsins. Hún klúðrar hverri rannsókninni á fætur annarri, þannig að stórmál eyðast fyrir dómi. Hún var nokkra mánuði að afgreiða Gýmismálið, þótt það hafi verið upplýst, áður en hún fékk það í hendur í sumar.

Í flestum stéttum þjóðfélagsins er til fólk, sem ekki kann til verka. Í fyrirtækjum úti í bæ er reynt að kenna þessu fólki eftir föngum og það síðan látið hætta, ef hvorki gengur né rekur. Hjá lögreglustjóranum í Reykjavík er ekki um neitt slíkt að ræða. Hann verndar sína.

Af þessari ástæðu lagast mál ekki hjá honum, þótt þau lagist hjá flestum öðrum forstjórum í landinu. Hin sjálfvirka og samvirka vörn lögreglukerfisins gegn öllu utanaðkomandi áreiti veldur því, að hvað eftir annað koma þar upp ofbeldismál, sem eru eins og úr þriðja heiminum.

Lögreglustjórinn mundi strax ná árangri, ef hann léti Sæma rokk halda námskeið fyrir lögreglumenn í almennum mannasiðum, svo að þeir slökustu fái tækifæri til að kynna sér helztu lágmarksatriði í mannlegum samskiptum, sem flestir borgarar þjóðfélagsins kunna.

Þótt lögreglumenn þurfi lögum samkvæmt ekki að kunna mannasiði, er hart fyrir embættið, að litlu sætu löggurnar skuli vera hafðar í flimtingum úti í bæ.

Jónas Kristjánsson

DV