Ljós í skammdegi.

Greinar

Vikum saman höfum við búið við fjúk og frost. Öndverður veturinn hefur verið sá næstkaldasti á öldinni. Í gær varð svo skammdegið svartast, á vetrarsólstöðum. Nú er hins vegar farið að birta aftur og hátíð ljóssins er á morgun.

Við höfum varla haft tíma til að hugsa um myrkrið og kuldann. Ofan á dagleg störf bætast annir og útréttingar jólaundirbúnings. Í dag er athafnasamasti dagur ársins hjá verzlunarfólki og fjölda annarra landsmanna.

Á morgun væntum við svo þess, að á komist friður og ró hjá sem flestum, einnig þeim sem ekki hafa tækifæri til að dveljast með sínum nánustu. Fyrst og fremst eru jólin þó samverustund fjölskyldna og hátíð barnanna.

Flestir Íslendingar hafa ástæðu til að hugleiða lán sitt á þessum jólum. Erlendir talnaleikir benda til, að lífsgæði í heiminum séu næstmest hér á landi, þegar saman eru tekin hin heilsufarslegu, félagslegu og efnislegu gæði.

Á tímum stöðnunar og atvinnuleysis úti í heimi er enginn bilbugur á landanum. Utanferðir hafa verið með mesta móti á þessu ári. Innflutningur á vörum hefur aukizt verulega síðari hluta ársins. Við kaupum bíla og bensín sem ekkert sé.

Hamingjan fylgir að vísu ekki með í kaupbæti, hversu mikil auraráð sem menn hafa. Að baki kaupgleðinnar ríkir þó hið eftirsóknarverða ástand, að allur þorri þjóðarinnar tekur þátt í velmeguninni, ekki bara fáir útvaldir.

Margir lyklar eru að þessari þáttöku. Aðstaða er einn þeirra, ábyrgð annar og menntun hinn þriðji. Enn aðrar fjölskyldur eignast lykil með mikilli yfirvinnu, uppmælingu eða með því að fleiri en einn vinnur utan heimilis fyrir tekjum.

Allir þeir, sem hafa einhvern þessara lykla, mynda eina stétt vel stæðra Íslendinga. Það er grundvöllur þess, að talað er um stéttlaust þjóðfélag á Íslandi. En því miður eru ekki allir í þessum lánsama hópi.

Hér á landi býr undirþjóð opinberra styrkþega og láglaunafólks. Annars vegar eru þar fjölmennastir sumir öryrkjar, sjúklingar og aldraðir. Hins vegar sumar fjölskyldur einstæðra foreldra og auðnuleysingja af ýmsu tagi.

Ellistyrkir og eyðilagðir lífeyrissjóðir koma í veg fyrir, að aldrað fólk komist beinlínis á vonarvöl. En þeir duga ekki til að lyfta öllu fólki, að loknum vinnudegi, upp í hið stéttlausa þjóðfélag íslenzkrar velsældar.

Hið sama gildir um fjölskyldur einstæðra foreldra, sem verða að lifa á einföldum láglaunum einnar fyrirvinnu og hafa vegna heimilisanna ekki tækifæri til að sinna yfirvinnu eða eiga hennar kannski alls ekki kost.

Hlutfallslega eru það fá börn og fá gamalmenni, sem verða útundan í efnahagsundrinu. En þetta fámenni ætti einmitt að verða okkur hvatning til úrbóta. Það er svo lítið, sem vantar til að gera þjóðina alla að einni stétt.

Hin stéttlausa þjóð, sem heldur jól í vellystingum praktuglega, ætti á hátíð ljóssins að gefa sér tíma til að hugleiða, að það er ekki meira afrek en önnur, sem hér hafa þegar verið unnin, að lyfta undirstéttinni úr skammdegi í tilverunni.

Með þessari hvatningu sendir Dagblaðið & Vísir öllum landsmönnum hinar beztu óskir um gleðileg jól.

Jónas Kristjánsson.

DV