Ljós og friður

Greinar

Veðurspámenn segja, að íslenzku jólin verði köld og hvít að þessu sinni, mild og þurr, eins og flestum finnst, að þau eigi að vera. Eftir langan hlýindakafla, sem staðið hefur fram undir jól er snögglega genginn vetur í garð um allt land með staðviðrum og greiðum samgöngum.

Botni skammdegismyrkurs hefur þegar verið náð og nú tekur dag að lengja á nýjan leik. Hátíð ljóssins minnir okkur á þessi kaflaskil í tilverunni og gefur okkur tækifæri til að hugsa með tilhlökkun til komandi mánaða. Ljósadýrð jólanna gefur okkur forskot á sæluna.

Veraldleg umsvif jólanna eru í hámarki um þessar mundir. Jólahaldið endurspeglar óhjákvæmilega lífskjör og lífshraða þjóðarinnar eins og endranær. Sumir eru önnum kafnir við þjónustustörf og aðrir í ýmsu vafstri, sem þeir telja verða að fylgja jólaundirbúningi.

Flestir fá senn tækifæri til að hægja á sér og njóta hátíðar ljóss og friðar. Víða sameinast fjölskyldur í borðhaldi og gagnkvæmum gjöfum. Þannig hefur það lengi verið og verður væntanlega lengi enn. Þetta er fasti punkturinn í árstíðabundnum takti lífsins.

Margt hefur þó breytzt, þegar horft er langt aftur í tímann. Jólaljósin eru fleiri og bjartari en fyrr. Tækni og auður gera okkur kleift að njóta jólanna betur en margir forfeðra okkar gátu, þótt fólki takist auðvitað misjafnlega að nýta sér velmegunina til betra lífs.

Sumir eru fastir í eltingaleik við meint lífsgæði af ýmsu tagi, tilgangslausri eftirsókn einskisverðra hluta, sem kalla á enn hraðari hlaup á eftir nýjum óskum, er áður voru ekki til. Íslenzku jólin hafa því miður löngum dregið dám af þessum taugaveiklaða vítahring.

Hver verður að smíða sína gæfu sem bezt hann getur. Fólki ber ekki skylda að taka þátt í dansinum kringum meira eða minna ímynduð lífsþægindi. Við megum velja og hafna. Margt fólk kann að halda streitunni í hófi og ná raunverulegri gleði friðarins um jóladagana.

Við þurfum einnig að átta okkur á, að brestir eru farnir að koma í velmegun þjóðarinnar. Þetta eru önnur jólin í röð, sem einkennast af því, að fleiri Íslendingar eru hjálpar þurfi en áður var. Með hægt vaxandi stéttaskiptingu fjölgar fólkinu, sem lifir við fátæktarmörk.

Það er óþægileg tilhugsun, að harkan skuli jafnt og þétt vera að aukast í þjóðfélaginu og að þeim skuli fara fjölgandi, sem af ýmsum ástæðum eru ekki þáttakendur í velmeguninni, er flestir búa við. Það er vont fyrir fámenna þjóð að þurfa að sæta vaxandi stéttamun.

Um þessar mundir er verið að rýra kjör aldraðra, öryrkja, atvinnulausra, sjúklinga og barnafólks. Stórbætt afkoma atvinnulífsins hefur ekki endurspeglazt í aukinni atvinnu og auknum tekjum almennings. Á sama tíma hafa þeir bætt hlut sinn, sem betur mega sín.

Þessi aukni ójöfnuður í þjóðfélaginu mun fyrr eða síðar baka okkur og landsfeðrunum vandræði, ef taflinu verður ekki snúið við. Okkur er fyrir beztu að skilja nauðsyn þess, að allir telji sig vera gilda aðila að þjóðfélaginu og séu sæmilega sáttir við innviði þess.

Jólin eru hátíð barnanna, sem síðar munu erfa landið. Okkur ber að reyna að leggja okkar af mörkum til að stuðla að því, að þau komi til verkefna í tiltölulega samstæðu og réttlátu þjóðfélagi, sem er sátt við sjálft sig. Það er bezta jólagjöf okkar til afkomendanna.

DV óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum bjartra og friðsælla jóla og góðs gengis á næsta ári.

Jónas Kristjánsson

DV